Lagt er til að starfsemi Vinnumálastofnunar verði styrkt verulega verði tillögur samstarfshóps um breytt framfærslukerfi öryrkja að veruleika. Félagsmálaráðherra fær óundirritaða skýrslu í hendur eftir páska. Enginn nefndarmanna skrifar undir eftir að bæði fulltrúi Öryrkjabandalagsins og Alþýðusambandsins neitaðu að skrifa undir.

Hver verða örlög skýrslunar

Það gæti stefnt í að örlög þessarar skýrslu verði að rykfalla í ráðuneytinu. Allt frá 2005 hafa verið lagðar fram fjölmargar skýrslur þar sem  viðfangsefnið hefur verið að breyta lífeyriskerfi öryrkja. Þá hefur það verið á stefnuskrá síðustu ríkisstjórna að tekið verði upp svokallað starfsgetumat í stað örorkumatsins sem nú er við lýði. Nú síðast hafa tveir hópar um upptöku starfsgetumats verið að störfum, faghópur um mótun og innleiðingu starfsgetumats og samráðshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Faghópurinn skilaði ráðherra niðurstöðum í byrjun árs. Samráðshópurinn hefur lokið störfum og skilar ráðherra óundirritaðri skýrslu eftir páska. Það er því í höndum ráðherra hvað verður um skýrsluna.

Fjórar mismunandi greiðslur

Í skýrslunni sem ráðherra fær eftir páska er lagt til að öryrkjar eigi kost á ferns konar mismunandi greiðslum úr almannatryggingum eða frá ríkinu, sjúkragreiðslum, endurhæfingargreiðslum, virknigreiðslum og örorkulífeyri. Loks er lagt til að tekin verði upp sveigjanleg störf sem geta hentað fólki með skerta starfsgetu. Þessar mismunandi greiðslur tengjast og segja má að lokamarkmiðið sé að viðkomandi komist í sveigjanlegt starf eða almennt hlutastarf og að ríkið greiði það sem á vantar til að viðkomandi nái fullum launum miðað við það starf sem hann fær. 

Sjúkragreiðslur

Fyrst er að nefna  greiðsluflokkinn sem gengur undir nafninu sjúkragreiðslur. Þær eru greiddar þeim geta ekki eða eru ekki færir um að taka þátt í endurhæfingu. Þeir eiga ekki rétt á greiðslum fyrr en réttindi viðkomandi í stéttarfélagi þeirra hafa verið tæmd. Greiðslurnar eru til eins árs í senn og geta í vissum tilfellum staðið yfir í sjö ár. Þessar greiðslur eru hugsaðar sem tímabundnar greiðslur til fólks sem glímir við tímabundin veikindi. Miðað er við að sjúkragreiðslurnar verði föst mánaðarleg upphæð. Hugsanlegar aðrar greiðslur til viðkomandi dragast frá samkvæmt ákveðnum reglum.

Endurhæfingargreiðslur

Næsti greiðsluflokkur eru endurhæfingargreiðslur sem eru fyrir þá einstaklinga sem eru taldir tilbúnir til að hefja virka endurhæfingu. Miðað er við að greiðslur geti staðið í allt að fimm ár. Á þessum tíma er metið hvort viðkomandi er fær um að sinna hlutastörfum. Í þessum greiðsluflokki, eða meðan á endurhæfingu stendur, er gert ráð fyrir fastri mánaðarlegri upphæð frá ríkinu. Það er gert ráð fyrir frítekjumarki, en þó sérstöku frítekjumarki vegna atvinnutekna, sem á að hvetja til atvinnuþátttöku.

Virknigreiðslur

Ef niðurstaðan er sú að einstaklingur geti sinnt hlutastarfi í 5 til 20 stundir á viku taka við virknigreiðslur sem geta staðið yfir í tvö ár í senn, eða á meðan einstaklingurinn er í atvinnuleit. Atvinnuleitin getur bæði beinst að almennu starfi og sveigjanlegu starfi. Tilgangurinn með þessum þriðja greiðsluflokki er að brúa bilið milli endurhæfingar og þátttöku á vinnumarkaði.

Örorkulífeyrir

Fjórði greiðsluflokkurinn er örorkulífeyrir sem svipar til þess kerfis sem er nú. Þessar greiðslur eru fyrir þá einstaklinga sem hafa ekki nægilega mikla starfsgetu til að sinna hlutastörfum eða sveigjanlegum störfum. Lagt er til að núverandi bótaflokkar, grunnlífeyrir, tekjutrygging og framfærsluuppbót verði sameinaðir í einn bótaflokk. Hér er í raun lagt til að farin verði sú leið sem farin var þegar ellilífeyriskerfinu var breytt. Þarna er gert ráð fyrir frítekjumarki vegna atvinnutekna, fjármagstekna og lífeyrisgreiðslna.

Sveigjanleg störf

Lokatakmarkið í þessu nýja kerfi er að einstaklingar geti sinnt sveigjanlegu starfi, annað hvort almennu starfi eða með stuðningi. Með sveigjanlegu starfi er átt við að starfið sé sveigt að getu viðkomandi. Þetta kallar á að völ sé á slíkum störfum. Í skýrslunni er lögð áhersla á að bæði almenni og opinberi vinnumarkaðurinn verði virkjaður betur til að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Veita þurfi auknu fjármagni til þessa verkefnis og nauðsynlegt sé að hefja þessa vinnu nú þegar. Vinnumálastofnun mun gegna mikilvægu hlutverki ef úr þessu verður og gert er ráð fyrir að hún verði efld verulega. Henni er ætlað að sjá um alla umsýslu þegar kemur að sveigjanlegum störfum og gera samninga við fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

Í megindráttum er gert ráð fyrir einstaklingur fái greidd laun og önnur starfskjör frá  sínum atvinnurekenda samkvæmt kjarasamningi. Í skýrslunni eru ekki lagðar fram tillögur um hve háar hinar ýmsu greiðslur geti orðið. Ákvörðun um það bíður væntanlega ráðuneytisins og ljóst er að leggja þarf fram lagabreytingar af ýmsum toga. Í skýrslunni er þó tæpt á hugsanlegum greiðslum og skerðingum þegar um hlutastarf er að ræða. Gert er ráð fyrir að viðbótargreiðslur frá ríkinu miðist við eða séu reiknaðar út frá því tímakaupi sem viðkomandi hefur í sveigjanlega starfinu. Gert er ráð fyrir ákveðnu hámarki og að það miðist við að vera ekki hærra en hámarksgreiðslur úr almannatryggingum til einhleyps örorkulífeyrisþega. Í skýrslunni er nefnt dæmi um að framlag ríkisins skerðist um 30% ef einstaklingur er með 250 þúsund króna mánaðartekjur og 55% ef tekjurnar fara yfir 250 þúsund. Hins vegar er miðað við að heildartekjur þess sem er í sveigjanlegu starfi geti ekki með framlagi frá ríkinu orðið hærri en þau laun sem viðkomandi fengi í 100% starfi.