Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir það óþolandi á skipulögðum vinnumarkaði að launamisrétti kynjanna viðgangist ennþá. Kjarasamningar taki ekki til kyns þannig að ójafnréttið birtist ekki við samningaborðið heldur í ákvörðunum.  

Þann 24. október 1975 gengu konur í tugþúsundatali niður á Lækjartorg og kröfðust jafnréttis. Árið 2005 var haldið upp á kvennafrídaginn í annað sinn og konur gengu út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við laun karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Í dag hyggjast konur ganga út klukkan 14:38. Á ellefu árum hefur hálftími bæst við eða tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með sama áframhaldi þarf því að bíða til ársins 2068 eftir að konur hafi sömu laun og sömu kjör og karlar.

Rætt var við Gylfa Arnbjörnsson á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar byrjaði hann á að benda á að það hafi verið ólöglegt í 60 ár að mismuna eftir kyni. Kjarasamningar geri ráð fyrir að greitt sé eftir menntun og starfi en ekki eftir kyni, því það sé einnig óheimilt samkvæmt kjarasamningi. „Verkalýðshreyfingin semur um kaup og kjör við okkar viðsemjendur þannig að hér er skipulagður vinnumarkaður. Það er óþolandi á slíkum skipulögðum vinnumarkaði að þetta skuli endurtaka sig í sífellu. Við höfum reynt ýmislegt því að þetta gerist ekki við samningaborðið, þetta gerist í ákvörðunum.“

Gylfi segir miklar væntingar vera til jafnlaunastaðalsins, sem byggi á hugmyndum gæða-og umhverfisstjórnunarkerfanna, og geti verið verkfæri fyrir stjórnendur fyrirtækja til að taka meðvitaða ákvörðun með skipulögðum hætti. „Okkur sýnist að þau fyrirtæki og stofnanir sem eru að nota þetta að þar er að takast betur að ná utan um þetta. Við erum aðeins að saxa á þetta bil.“

Það gangi þó hægt. „Það sættir sig enginn við það að það taki 50 ár að ná einhverju markmiði. Það skiptir engu máli hvort það er launamunur kynjanna eða einhver annar launamunur. Það er bara óásættanlegur tími að segja að við skulum leiðrétta þetta á 50 árum. Það er heil mannsævi.“