Enginn fannst í danska kafbátnum

13.08.2017 - 10:13
Sérfræðingar dönsku lögreglunnar hófu í morgun að rannsaka heimasmíðaðan kafbát sem var lyft af hafsbotni á Eyrarsundi síðdegis í gær. Enginn fannst um borð, lífs eða liðinn.

Eigandi bátsins, Peter Madsen að nafni, var í gær úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hafi orðið sænskri blaðakonu, Kim Wall, að bana. Ekkert hefur til hennar spurst síðan á fimmtudag. Hún fór þann dag í sjóferð með eiganda kafbátsins. Hann segist hafa skilað henni á land á Refshaleeyju í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöld. Kafbáturinn sökk á Eyrarsundi á föstudagsmorgun.

Peter Madsen segist hafa verið að gera tilraun með sjótank sem notaður er til að þyngja bátinn þegar eitthvað fór úrskeiðis og báturinn tók að sökkva. Maður sem átti leið hjá á mótorbáti sínum kom honum til aðstoðar þegar kafbáturinn var að sökkva.

Lögreglan staðfesti um hádegisbil að dönskum tíma að enginn hafi fundist um borð í kafbátnum, lífs eða liðinn. Vísbendingar fundust um að bátnum hefði verið sökkt viljandi.

Madsen neitaði því fyrir rétti í gær að hafa átt nokkurn þátt í hvarfi sænsku blaðakonunnar. Dómari féllst á kröfu saksóknara um gæsluvarðhald til 5. september.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV