Engin tengsl milli skjálftahrinanna tveggja

27.07.2017 - 01:47
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Töluvert hefur dregið úr skjálftavirkni síðustu klukkustundirnar, jafnt á Reykjanesskaga sem í Kötluöskju, þar sem nokkrir öflugir skjálftar urðu í dag og í kvöld. Í morgun hófst skjálftahrina austan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga og stendur enn. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu varð rétt eftir hádegi og mældist 4,1 að stærð. Stærsti skjálftinn í Mýrdalsjökli var 4,5 að stærð. Engin tengsl eru á milli hrinanna tveggja og engin merki um gosóróa.

Kristín Elíza Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir stærstu skjálftana á Reykjanesskaganum hafa fundist víða á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, og einnig á Akranesi og allt upp í Borgarfjörð.

Í kvöld hófst svo skjálftahrina í Kötluöskjunni undir Mýrdalsjökli. Sá stærsti mældist 4,5 að stærð, sá varð klukkan 22.18 og kom fast á hæla annars skjálfta, sem mældist 3,2. Kristín segir engin tengsl vera á milli skjálftahrinanna tveggja, það sé algjör tilviljun að þetta gerist á sama tíma. 

Hún segir stærð skjálftanna í Kötluöskjunni heldur ekkert til að hafa áhyggjur af. „Nei, þetta er líklegast bara tengt bráðnun í jöklinum og það verða oft skjálftahrinur þarna í jöklinum. Þó svo að þessi hafi verið nokkuð stór, þá er það ekkert til að hafa áhyggjur af að svo stöddu, og það hefur enginn órói mælst í Mýrdalsjökli, í tengslum við þessa skjálfta.“