Svissneski leikarinn Bruno Ganz andaðist þann 16. febrúar síðastliðinn, 77 ára gamall. Ganz var einhver þekktasti kvikmyndaleikari Evrópu og átti að baki feril sem spannaði hálfa öld, í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi.

Þekktastur var Ganz fyrir hlutverk sín í myndum á borð við Himinninn yfir Berlín (1987), eftir þýska kvikmyndaleikstjórann Wim Wenders, þar sem hann lék engil, og Der Untergang (2004), þar sem Ganz lék Adolf Hitler afar eftirminnilega. Bruno Ganz lék í ríflega hundrað kvikmyndum á sínum ferli og vann með þekktum leikstjórum á borð við Werner Herzog, Éric Romer, Ridley Scott, Theo Angelopoulos, og Francis Ford Coppola, svo nokkrir séu nefndir. Ganz fæddist í Zürich í Sviss í mars árið 1941, steig fyrst á leiksvið árið 1961 og hóf feril sinn sem kvikmyndaleikari um svipað leyti.

Hann vann meðal annars með leikstjórum þýsku nýbylgjunnar og gegndi mikilvægu hlutverki í henni auk þess sem hann átti þátt í því að stofna Berliner Schaubühne - leikhúsið árið 1970 og lék þar mörg hlutverk. Árið 1977 lék hann á móti bandaríska leikaranum Dennis Hopper í kvikmyndinni Der Amerikanische Freund, mynd sem gerð var eftir skáldsögunni Ripley's Game eftir bandaríska rithöfundinn Patriciu Highsmith. Og árið 1979 lék Ganz á móti þýska leikaranum Klaus Kinski í kvikmyndinni Nosferatu: Phantom der Nacht eftir þýska kvikmyndaleikstjórann Werner Herzog. Ganz lék einnig í kvikmyndinni The Boys from Brazil frá árinu 1978, eftir bandaríska leikstjórann Franklin James Schaffner, þá á móti enska leikaranum Sir Laurence Olivier.

Mikil nærvera og mörg ógleymanleg hlutverk

„Uppáhaldsmyndin mín er Himinninn yfir Berlín,“ segir Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri, sem leikstýrði Ganz á Straumnesfjalli í kvikmyndinni Börnum náttúrunnar frá árinu 1991. Friðrik nefnir einnig kvikmyndina Eternity and a Day eftir gríska kvikmyndaleikstjórann Theo Angelopoulos en fyrir þá mynd fékk leikstjórinn Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1998. „Hans nærvera á tjaldinu var bara eitthvað sem gerði það að verkum að manni leið vel nema kannski þegar hann var að leika Hitler af einskærri snilld.“

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi bjó lengi í Berlín, fylgdist vel með ferli Bruno Ganz, og hefur líkt og Friðrik miklar mætur á kvikmyndinni Himinninn yfir Berlín. „Hún er römmuð inn af ofsalega einfaldri speki en ofsalega fallegri og djúpri þannig að ég hef þá trú að þessi mynd eldist vel.“ Hjálmar nefnir einnig sérstaklega kvikmyndina Der Amerikanische Freund eftir Wim Wenders frá árinu 1977. „Ég man líka eftir honum í mynd Érics Rohmers, Markgreifynjan frá O, byggð á hinni stórkostlegu nóvellu Heinrichs von Kleist, og líka Der Untergang, og ég man líka að hann var ofsalega góður í mynd sem var gerð um Baader Meinhof Complex þar sem hann lék lögregluforingjann, hann hafði gríðarlega sterka nærveru,“ segir Hjálmar, „ógleymanlegur þannig.“

Það var árið 1987 sem Bruno Ganz lék einmana engil sem ráfar í svörtum frakka um gráar götur Berlínar og huggar íbúa borgarinnar í angist þeirra, í kvikmyndinni Himinninn yfir Berlín eftir Wim Wenders, og síðan aftur í kvikmyndinni Faraway, So close! (In Weiter Ferne, So Nah) árið 1993. Hjálmar segir að kvikmyndin Himinninn yfir Berlín lýsi ekki síst horfnum heimi. „Ég man eftir Vestur-Berlín svona, furðulega grá, sérstaklega á veturna, og hrá, og á einhvern hátt smá glötuð, algerlega einangruð inni í miðju Austur-Þýskalandi, mjög sérstakt samfélag, en þessi borg hafði líka óútskýranlega orku sem leysist öðru hvoru úr læðingi.“ Friðrik Þór segir að Bruno Ganz hafi sjálfum þótt vænst um hlutverk sitt sem engillinn Damiel í þessari mynd. „Hann hélt sjálfur mest upp á þetta hlutverk, og sagði mér að á brautarstöðinni í Sviss þar sem hann bjó tók fólk honum sem engli.“

Geggjaður Hitler

Bruno Ganz fékk afburða dóma fyrir hlutverk sitt sem Adolf Hitler í kvikmyndinni Der Untergang árið 2004, sem fjallaði um síðustu daga harðstjórans í búnkernum í Berlín. Ganz var heila fjóra mánuði að undirbúa sig fyrir hlutverkið og sögðu gagnrýnendur að enginn leikari hefði nokkurn tímann leikið Hitler, æði hans og örvæntingu, af meiri sannfæringakrafti. Á meðal síðustu mynda sem Ganz lék í má nefna The House That Jack Built eftir danska kvikmyndaleikstjórann Lars von Trier, sem frumsýnd var í fyrra, og nýjustu mynd bandaríska leikstjórans Terrence Malick, Radegund, sem frumsýnd verður á þessu ári.

Rætt var við Friðrik Þór Friðriksson og Hjálmar Sveinsson í Lestinni.