Atvinnurekendur geta komist upp með það aftur og aftur að hafa laun af starfsfólki sínu, sagði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Hann sagði að meðan engar sektir væru við slíkum brotum gætu fyrirtæki raunverulega kosið að borga bara einhver laun og láta svo á það reyna hvort starfsfólkið leitaði til stéttarfélags síns til að innheimta það sem fólkið ætti inni.
„Þetta eru í eðli sínu aðskilin mál í þeim skilningi að þetta eru nýir einstaklingar. Þetta eru ný tilfelli, nýir verkamenn sem eiga þarna í hlut. Þetta er sama fyrirtæki sem er að brjóta aftur og aftur og aftur á verkafólki,“ sagði Viðar í kvöldfréttum í sjónvarpi. „Ég skynja það að alþjóð spyr sig: Hvernig má þetta vera? Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem var á allra vörum í október síðastliðnum kemst upp með þessa hegðun og heldur henni áfram óáreittri. Því miður veit ég svarið við því. Svarið er að stórum hluta það að það eru ekki viðurlög við brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði, í kjarasamningum sem gætu þó verið.“
Viðar sagði að sum brotanna varði við hegningarlög. Öðrum væri hægt að taka á í kjarasamningum. „Við höfum kallað eftir því gagnvart SA og sett það fram í kröfugerð okkar í október ákkurat þegar þessi mál voru í hámæli.“ Hann sagði að það ættu að vera viðurlög í kjarasamningum við því að stunda launaþjófnað. „Ég er ekki viss um að allir séu upplýstir um það. Það er raunverulega þannig að fyrirtæki geta raunverulega kosið að borga bara einhver laun og láta svo á það reyna hvort að starfsmaðurinn fari til stéttarfélagsins eða ekki,“ sagði Viðar. „Þessu fylgja engar sektir og það lendir á launamanninum að taka á sig kostnað vegna þessa. Það er hægt að endurtaka þetta aftur og aftur.“ Hann sagði að starfsfólk kjaramálasviðs Eflingar vinni að því dag hvern að innheimta vangoldin laun hjá sömu fyrirtækjunum aftur og aftur.
Hann sagði tengingu ráðningarsamninga og húsaleigusamninga vera mjög óheilbrigða. Við það yrðu til aðstæður sem mætti líkja við ánauð. Þannig gætu atvinnurekendur notað aðstöðuna til að beita starfsmenn fjárkúgun. „Mér finnst boltinn vera hjá Samtökum atvinnulífsins að bregðast við þessu. Vegna þess að það væri hægt á morgun að koma sér saman um einföld ákvæði í kjarasamningi sem myndu taka á stórum hluta þessara mála.