Gunnar Þorri Pétursson bókmenntafræðingur skrifar athyglisverða grein í nýjasta hefti Ritsins, Tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Gunnar talar um blómaskeið í bókmenntafræðinni undir lok níunda áratugarins, þegar frjóar umræður fóru fram, um skáldskap og fræði. Hann segir að nú hafi hins vegar syrt í álinn, allt þetta líf hafi borið dauðann í sér; bókmenntafræðin hafi snúist gegn bókmenntunum sjálfum.

Krafturinn seitlað úr bókmenntafræðinni

Greinin ber yfirskriftina „Endalok nútímabókmenntafræði á Íslandi“ og í henni bregður hann sögulegu ljósi yfir bókmenntafræðina eins og hún hefur verið iðkuð hér á landi síðustu 35 árin eða svo, eða frá því að nýr grundvöllur var lagður að fræðunum, með svokölluðum póststrúktúralisma, sem Gunnar segir að hafi verið boðaður hér eins og fagnaðarerindi.

Með póststrúktúralisma er átt við hugsun sem rekja má til fræðimanna á borð við Jacques Derrida, Roland Barthes, Juliu Kristevu, Michel Foucault fleiri, sem voru fyrirferðarmikil í íslenskri bókmenntaumræðu fyrir fáeinum áratugum.

„Roland Barthes skrifaði fræga ritgerð um dauða höfundarins 1977 og er það einn af hornsteinum póststrúktúralismans, eða póstmódernismans. Þar segir hann að höfundurinn sé dauður. En það sem er hann í raun að segja er að sú merking sem höfundurinn réð yfir áður er komin til lesandans – og þar með túlkandans og þar með bókmenntafræðingsins,“ segir Gunnar Þorri. Þessi tilfærsla valds hafi reynst afskaplega frjó til skemmri tíma.

„Þannig varð þessi orðræðubundna áhersla til – að allt sé texti ... en ef allt er texti þá er engin hámenning og engin lágmenning. Smám saman leitar krafturinn út og smám saman hætta bókmenntafræðingar í miklum mæli að fjalla um bókmenntir og fara að fjalla um menningarfræði og kvikmyndafræði.“

Þörf á róttæku uppgjöri

Gunnar Þorri segir nútímabókmenntafræði á Íslandi vera í vondum málum, nema til komi róttækt uppgjör við fortíðina og ríkjandi viðmið innan hugvísindanna. 

Bókmenntafræðin snúist í raun ekki um bókmenntir lengur, heldur hafi hún útvistað aðferðafræði sinni til annarra greina, kvikmyndafræða, þýðingarfræða, kynjafræða og þannig megi áfram telja. Þetta sé alþjóðleg þróun, sem mikilvægt sé að skoða í sögulegu ljósi, ekki síst vegna þess að hin póstmódernísku fræði snúist ekki síst um það að hafna öllum grunni, gagnrýna stigveldi og stórsögur. Það sé því undarlegt að slík stefna skuli hafa verið sett til þess öndvegis sem gert var á Íslandi fyrir um það bil þrjátíu árum.

Gunnar Þorri ræddi málin í Víðsjá.