Um áramótin tóku gildi breytingar á lögum um brottnám líffæra. Í breytingunum sem samþykktar voru í fyrrasumar er gengið út frá því að eðlilegra sé að fólk vilij koma náunga sínum til hjálpar með því að gefa líffæri að sér látnu en ekki. Fólki er því ætlað samþykki fyrir því frekar en að ætla neitun.
Fólki er fullkomlega frjálst að lýsa sig andvígt því að numin séu úr því líffæri almennt eða jafnvel tiltaka að það vilji ekki að ákveðin líffæri séu numin úr því og það er hægt að gera á vefnum heilsuvera.is. eða á vef landlæknisembættisins. Þrátt fyrir þetta ætlaða samþykki er það þó þannig að leggist nánir aðstandendur gegn brottnámi líffæra verður það virt.
Tugir þúsunda hafa tekið afstöðu
Jórlaug Heimisdóttir verkefnisstjóri hjá Landlæknisembættinu segir að þegar hafi tugþúsundir gefið upp afstöðu sína til líffæragjafar. Síðla árs höfðu 42 þúsund Íslendingar skráð afstöðu sína til líffæragjafar á vef landlæknis af þeim voru 94% samþykk, 2% andvíg og 4% sögðust vilja gefa ákveðin líffæri. Í breytingunum nú felist kannski helst að það verði auðveldara að opna samtal við aðstandendur um lífæragjöf.
Þeir sem þegar hafi gefið upp sína afstöðu þurfa ekki að ítreka hana, allar upplýsingar sem þegar hafa verið skráðar færast áfram segir Jórlaug. Látnir líffæragjafar hér hafa verið um átta til tíu á ári en um álíka margir eru hér lifandi líffæragjafar, það er fólk sem gefur nýra í flestum tilfellum til ættingja og hlutfall slíkra líffæragjafa er hátt hér á landi.
Viðhorf og traust skiptir meira máli en lögin
Jórlaug segir að breytingar á löggjöf hafi í sjálfu sér lítil áhrif á það hve margir eru líffæri eru gefin; mestu skipti að fólk ræði þetta við sína nánustu. Umræða í fjölmiðlum hafi áhrif, til dæmis hafi fleiri þúsund manns gefið upp afstöðu sína á einum sólarhring eftir sjónvarpsviðtal við foreldra ungs manns sem gaf líffæri sín. Margir þekki einhverja sem hafi þegið líffæri og öll umræða hafi orðið opnari.
Engar takmarkanir á því fyrirfram hver er mögulegur gjafi
Um áramótin spratt enn upp umræða um takmarkanir á því hverjir geta gefið blóð, samkynhneigðir karlar geta ekki verið blóðgjafar en þessu er ekki svo farið um líffæragjöf. Fyrirfram eru þar engar takmarkanir og Jórlaug bendir á að elsti líffæragjafi hérlendis hafi verið karlmaður á níræðisaldri.