„Lífið er skáldskapur, endalaust og ótakmarkað flæði. Allt er þetta skáldskapur og ólgandi sköpunarflæði. Maðurinn er alltaf að reyna að smíða sér lífsheldan öruggan klefa sem ekkert getur látið hrynja. En lífið er hrynjandi, það hrynur og hefst upp aftur og það er það dásamlega við lífið,“ segir Ísak Harðarson í spjalli um bók vikunnar á Rás1, Ellefti snertur af yfirsýn.
Ísak hefur áður sent frá sér ljóðabækur, smásögur, skáldsögu og fleiri verk, auk fjölmargra þýðinga en ljóðabókin Ellefti snertur af yfirsýn er ellefta ljóðabók Ísaks. Níu ár eru frá því hans síðast verk kom út, ljóðabókin Rennur upp um nótt en hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Eiríkur Guðmundsson, umsjónarmaður Lestarinnar, ræddi við Ísak þegar bókin kom út í síðast mánuði og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni, auk lesturs Ísaks á nokkrum ljóðum, í spilaranum hér að ofan.
Auður Aðalsteinsdóttir er umsjónarmaður þáttarins á sunnudag og viðmælendur hennar verða Þórunn Hrefna Sigurðardóttir og Arngrímur Vídalín.