„Stundum klæddum við okkur ekki úr fötum, þá bara sváfum við í fötunum. Þegar tunglsljósið var þá var árás ábyggilega,“ segir Elfríð Pálsdóttir.
Hún fæddist nálægt Lübeck í Þýskalandi árið 1930 og upplifði hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar á eigin skinni, missti foreldra og systkini. Hún er ein af þýsku stúlkunum sem komu sem vinnukonur til Íslands eftir stríðslok. Þessar konur kunnu ýmislegt fyrir sér, prjónuðu listavel, gerðu páskaegg og skreyttu jólatré. Sumar voru vanar lífi í þýskum stórborgum en þurftu að gera sér að góðu fábreytt líf á íslenskum sveitaheimilum sem flest voru án rafmagns.
Áttu að hata útlendinga
Elfríð segir að eitt það erfiðasta við að alast upp sem barn í Þýskalandi nasismans hafi verið að þar áttu allir að hata útlendinga. „Það var stúlka í bekknum mínum frá Póllandi og ég hafði hana með leynd sem vinkonu. Ég klæddi mig alltaf í tvöföld föt og gaf henni föt frá mér. Ég hjálpaði henni með þýsku sérstaklega. Þessir krakkar voru bara flengdir ef þeir lærðu ekki fljótt þýsku. Það var farið illa með útlendu börnin.“
Kennarar njósnuðu um skoðanir foreldra
Mikil tortryggni var í samfélaginu og hún segir að börnin hafi oft ekki mátt leika sér nálægt þar sem fullorðna fólkið var að spjalla saman. Það gat boðið hættunni heim. „Kennararnir spurðu okkur líka – hvað tala foreldrar heima og hlusta þeir nokkuð á ólöglegt útvarp og hvað tala þau um Hitler? Það kom nú fyrir ef börnin sögðu frá einhverju að fólkið myndi bara hverfa. Það hefði farið í fangelsi. Það hefði verið nóg að segja - Hitler vinnur ekki stríðið. Við þurftum að leika líka í fjölskyldunni að við tryðum á.“
Hryllilegar raunir í stríðinu
Hún þurfti að taka þátt í Hitlersæskunni og eftir langvarandi loftárásir á Lübeck var hún flutt yfir til Austurríkis með öðrum stúlkum. Þetta ferðalag var ætlað til að hvíla börnin sem voru hætt að geta sofið og lært af ótta. Hún var í Austurríki í sex mánuði undir járnaga nasistakvenna. Elfríð, móðir hennar og bræður lentu síðar í miðri stórskotaliðsárás. Elfríð ók ungum bróður sínum í barnavagni og þurfti að lyfta lífvana líkama hans upp úr vagninum þegar heim var komið. Hann lifði ekki af og hún þurfti að horfa á eftir honum í fjöldagröf. „Það er eins og þú sért í þokunni. Það gerist ekki nálægt þér það gerist allt í þokunni. Maður verður svona þegar maður missir allt. Þú nærð þessu ekki alveg,“ segir Elfríð. Þegar hún var unglingur þurfti hún ásamt öðrum stúlkum að fela sig í hlöðu fyrir rússneskum hermönnum sem leituðu að þeim með byssustingjum í heyinu. Hún eignaðist unnusta en var neydd í ólöglega fóstureyðingu.
Úr stríðshörmungum í fátækt á Íslandi
Eftir stríð vann hún við kröpp kjör á hóteli en bauðst að fara til Íslands. Hún fór sem vinnukona á Siglunes þar sem var mikil fátækt. Hún þurfti 19 ára gömul að ganga þremur börnum nánast í móðurstað þar sem móðir þeirra var veik og dó síðar úr krabbameini. Hún fann hamingjuna á Íslandi eftir að hún kynntist manni sínum Erlendi Magnússyni. Þau bjuggu lengi á Siglunesi, eignuðust sjö börn og fluttu svo austur á Dalatanga þar sem þau bjuggu í 26 ár sem vitaverðir. Elfríð varð þekkt fyrir mikla og fjölbreytta ræktun enda hafði hún verið vön því að vera umkringd blómum og ávaxtatrjám í Þýskalandi. Margir dáðust að því hvað hún gat látið vaxa og bera ávöxt á Íslandi.
Hún segir frá reynslu sinni í bókinni. Elfríð - frá hörmungum Þýskalands til hamingjustrandar en bókina setti hún saman ásamt dóttur sinni Helgu Erlu Erlendsdóttur. „Þetta kostaði margar svefnlausar nætur. Stundum að kvöldi datt mér í hug ýmislegt og þá sat ég kannski hálf kjökrandi yfir tölvunni og maðurinn minn sagði: „Heillin mín komdu nú að hátta, það er komin nótt,“ segir Elfríð.
Rúnar Snær Reynisson hitti Elfríð sem nú býr á Egilsstöðum en viðtal við hana var flutt í þættinum Sögur af landi á Rás eitt í dag. Lengra viðtal við hana má heyra í spilaranum hér að ofan.