Betur fór en á horfðist þegar bruni kom upp í brugghúsi Seguls 67 á Siglufirði á þriðjudag. Þrjú bretti af bjór eyðilögðust í brunanum en bruggsmiðjan sjálf slapp vel. Verið var að vinna við að rífa niður járnfestingar í þeim hluta hússins sem stóð auður, en þar voru gamlir frystiklefar.

Neisti frá slípirokk komst í tjöru í klæðningu, en klefarnir voru vel einangraðir, og út frá honum kviknaði eldurinn. Reykurinn var mikill og erfitt var að komast að eldinum þar sem hann brann. Slökkviliðið fékk útkall klukkan sex um kvöldið og hafði ráðið niðurlögum hans rétt eftir miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn nánast lokið.

Þakkar fyrir að ekki fór verr

Marteinn B. Haraldsson, eigandi Seguls 67, segir að unnið hafi verið að því í rólegheitum að breyta húsnæðinu í norðurenda hússins þar sem frystiklefarnir eru. „Þetta er hugsað til stækkunar í framtíðinni, en nú verður að koma í ljós hvað verður um húsið. Tryggingarnar eru að fara yfir málin núna og svo skýrist framhaldið,“ segir Marteinn.

Framleiðsla Seguls er ekki mjög umfangsmikil og brettin þrjú sem eyðilögðust hafa því svolítil áhrif á rekstur fyrirtækisins. Hann segir það þó ekkert óyfirstíganlegt. „Maður er bara ánægður með að ekki hafi farið verr. Við viljum koma á framfæri þökkum til slökkviliðsins, bæði hér á Siglufirði og í Ólafsfirði, og björgunarsveitarinnar,“ segir Marteinn.

Á Facebook síðu fyrirtækisins hafa sumir bent á að bjórtegundir með bragði af reyk séu vinsælar núna. „Það er aldrei að vita nema við skellum í góðan reyktan bjór og höfum nafnasamkeppni,“ segir Marteinn.