Eldsneytishækkun bitni mest á landsbyggðinni

13.09.2017 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Boðuð hækkun á eldsneytisverði mun bitna mest á fólki á landsbyggðinni því það ekur að jafnaði fleiri kílómetra á ári en fólk á höfuðborgarsvæðinu, segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB. Þar eru rafbílar jafnframt ekki valkostur sökum þess hve langar vegalengdir þarf oft að sækja nauðsynlega þjónustu.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hækkar olíugjaldið um 11,40 kr. á lítrann og kolefnisgjaldið um 98%. Það þýðir að dísilolíulítrinn hækkar um 22 krónur með virðisaukaskatti. Bensínlítrinn hækkar um 9 krónur samtals.

„Miðað við dæmigerða notkun á heimilisbíl þýðir þessi hækkun 30-60 þúsund króna viðbótarkostnað við eldsneytiskaup á ári,“ segir Runólfur. Hann bendir á að auk beinnar hækkunar muni áhrifa gæta í vísitölunni, því eldsneyti vegi þar þungt.

Spurður hvort FÍB muni bregðast við segir hann að félagið hafi lýst yfir þungum áhyggjum af þessum áformum. „Ef hugmyndir eru uppi um að breyta samgöngumátum og fara að einherju leyti yfir í innlent eldsneyti vantar alla stefnumörkun,“ segir hann.

Skilaboðin séu að auki misvísandi. „Fjármálaráðherra notaði hugtakið „skattajöfnun“ þegar hann lýsti þessum áformum í gær. Það er einfaldlega orðhengilsháttur. Það er ekki skattajöfnun að hækka dísilolíu meira en bensín, en hækka samt bensínið líka,“ segir hann.

Þá bendir Runólfur á að fólk hafi undanfarin misseri verið hvatt til að kaupa dísilbíla til þess að draga úr koltvísýringsmengun. „Svo kom upp umræða um magn sóts í útblæstri dísilbíla og því næst kom upp hneykslið um fölsun mengunarmælinga nýrra dísilbíla. Nú er því spjótunum beint gegn dísilbílum sem er ekki sanngjarnt því nýjustu dísilbílarnir eru alveg sambærilegir við bensínbílana hvað varðar mengun,“ segir hann.

Þá bendir hann á að þessar hugmyndir mismuni jafnframt fólki á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi vegna þess að meðalakstur á landsbyggðinni sé meiri en á höfuðborgarsvæðinu. Þar sé jafnframt oft langt að sækja ýmsa þjónustu og rafbílar séu ekki orðnir valkostur í þeim efnum.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir