Íslendingar þurfa að færa allt laxeldi yfir í lokaðar sjókvíar eða upp á land. Þetta segir sænskur blaðamaður sem hefur skoðað laxeldi í Noregi með ítarlegum hætti. Formaður Landssamtaka fiskeldisstöðva segir slíkar hugmyndir algjörlega óraunhæfar.
Sænski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Mikael Frödin hefur fjallað mikið um fiskeldi í opnum sjókvíum og áhrif þess á lífríkið. Frödin, sem er mikill laxveiðimaður, var nýlega dæmdur til sektargreiðslu í Noregi eftir að hafa fangað og myndað lax í sjókví þar í landi. Frödin hélt fyrirlestur í Norræna húsinu í dag. Fyrirlesturinn var í boði Verndarsjóðs villtra laxastofna sem stendur nú fyrir átaki þar sem fjallað er um kosti þess að stunda fiskeldi á landi eða í lokuðum sjókvíum. Í fyrirlestri sínum vísaði Frödin meðal annars í rannsóknir þar sem í ljós hefur komið að erfðablöndun hefur orðið á laxi í sextíu prósentum áa í Noregi.
„Ég er enginn andstæðingur laxeldis út af fyrir sig, en það þarf að vera háð eftirliti og reglum eins og allar annar iðnaður,“ segir Frödin. „Ég skil ekki hvernig Íslendingar geta opnað landið fyrir norskum fyrirtækjum og leyft þeim að hagnast á íslenskri náttúru. Stjórnmálamenn verða að sýna ábyrgð í verki gagnvart komandi kynslóðum. Það sem hér hefur gerst er að íslenskri náttúru hefur verið fórnað fyrir þetta norska laxeldi í sjókvíum.“
En nú hafa laxeldisfyrirtækin bent á að laxeldi er einhver umhverfisvænasta aðferð sem til er til þess að framleiða prótein, hverju svarar þú því?
„Við vitum að laxeldi í lokuðum kerfum virkar og slík kerfi eru komin í gagnið. Ég borðaði kvöldmat í Reykjavík í gær og spurði hvaðan fiskurinn kom. Hann var þá ættaður úr lokuðu landeldi. Við vitum að þetta gengur upp. Það sem Íslendingar verða að læra er að eldi í opnum sjókvíum gengur ekki,“ segir Frödin.
„Gríðarleg þróun“
Einar K. Guðfinnson, formaður Landssamtaka fiskeldisstöðva, segir að hugmyndir Frödin séu algjörlega óraunhæfar.
„Í dag er verið að framleiða tvær og hálfa milljón tonna af laxi í heiminum. 17,5 milljarður máltíða á ári. Þetta er nánast allt framleitt í kvíum eins og þeim sem maðurinn var að tala um hér áðan. Lokaðar kvíar og landeldi, menn hafa talað um þetta sem einhverjar töfralausn. Stofnkostnaður við landeldi er svona tífaldur miðað við sjókvíarnar. Rekstrarkostnaður er 40-50% hærri. Varðandi lokuðu kvíarnar, þá eru þær bara á tilraunastigi,“ segir Einar.
En nú hafa borist fréttir af því að það sé verið að veita leyfi til þess að hafa eldið í lokðum kvíum úti í heimi?
„Nei það er bara ekki rétt. Í Noregi hafa menn verið að gefa út fjöldann allan af leyfum, líka tilraunaleyfi, líka þróunarleyfi, en sannleikurinn er nú sá að framleiðslan fer fram með svipuðum hætti og hér á Íslandi og þannig er það um allan heim.“
En hvað getur orðið til þess að skapa sátt um þetta, vegna þess að það er engin sátt um hvernig farið er að?
„Það eina sem við getum gert er að reyna að sýna að við getum stundað þetta laxeldi í góðri samvinnu við hlutaðeigandi aðila.“
En hún er ekki fyrir hendi.
„Nei en það gerum við með því að sýna hvernig fiskeldi er stundað hér á landi. Sýna að við erum að fylgja ströngum reglum. Sýna að við erum tilbúin til að taka í notkun nýjan búnað. Og ég útiloka auðvitað ekki að einhvers konar lokaður búnaður geti verið hér í framtíðinni. En það er ekki að gerast í dag eða á morgun. Við sjáum líka það sem hefur gerst í fiskeldinu, það hefur orðið gríðarleg þróun og hún heldur áfram,“ segir Einar.