Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, sagði það ítrekað hafa komið fram að ríkisstjórnin ætlaði að ljúka ákveðnum málum og síðan yrði boðað til kosninga. Hann sagðist ætla að leggja fram þingrofstillögu og það yrði að fara skýrast innan ekki svo langs tíma til að gefa stjórnmálaflokkunum tækifæri til að undirbúa sig.

Sigurður Ingi sagði október vera hluta af haustinu og það væri því mjög líklegt að kosningarnar yrðu einhvern tímann á því tímabili.

Sigurður og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ræddu við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, eftir eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.  Þar gagnrýndi stjórnarandstaðan ríkisstjórnina fyrir hálfgert auðmannadaður og að uppljóstrun Panamaskjalanna hefði varpað ljósi á að hér byggju tvær þjóðir. 

Ráðherrum og þingmönnum stjórnarflokkanna var  tíðrætt um þann góða árangur sem náðst hefði í efnahagsmálum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði Panamaskjölin hafa sýnt að fámennur hópur fólks hefði nýtt sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma sína peninga og að tími væri komin á að ráðast á rót þessarar misskiptingar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði Ísland hafa unnið bug á kreppunni og að nú væri að hefjast nýtt skeið framfara sem væri byggt á traustari grunni en flestir gátu spáð fyrir eftir bankahrunið.

Menn yrðu þó að halda vöku sinni og hafa í huga að kaupmáttaraukning upp á tíu til ellefu prósent væri ekki eitthvað sem hægt væri að taka út á hverju ári - til þess þyrfti framleiðni að aukast og það væri ekki að takast. Hlutverk stjórnvalda nú væri að verja þennan góða árangur.

Í sama streng tók Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra. Hann taldi að það væri þó drambsöm afstaða að þakka núverandi ríkisstjórn allt það góða sem nú væri í gangi í íslensku samfélagi. „„En á sama tíma og menn kenna henni um það sem ekki er í lagi er sjálfsagt að þeir hinir sömu viðurkenni hin góðu verk hennar.“

Árni Páll Árnason, sem lætur af formennsku í Samfylkingunni um helgina, sagði atburði síðustu mánaða hafa sýnt mikilvægi þess að breyta reglunum um tengsl hins opinbera og áhrifamanna í viðskiptalífinu. Vel tengdir viðskiptamenn hefðu fengið að auðgast vegna þess að þeir hefðu notið aðgangs að takmarkaðri aðstöðu eða ríkiseignum.„Nú hefur komið í ljós að þessir vildarvinir hafa ekki einu sinni hirt um að borga hér skatt af fengnum.“

Panamaskjölin voru Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, einnig hugleikinn - hann sagði þau hafa verið eins og högg í magann eftir að þjóðin hefði farið að trúa því að hún væri loks að jafna sig á efnahagshruninu.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagðist eiga erfitt með útskýra fyrirbærið „pólitík“ og nefndi máli sínu til stuðnings lekamálið, Wintris-málið og aðildarviðræðurnar við ESB. Hann kvaðst vilja trúa því að það yrði kosið í haust. „En ef ég segðist viss um það væri ég að ljúga.“