„Það sem hefur nú gerst síðasta sólarhringinn er bara smá frávik frá atburðarásinni sem hefur verið í gangi," segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði. Eldgosið sem hófst á miðnætti stóð að líkindum í þrjá eða fjóra klukkutíma og er því lokið.
Páll segir að landsmenn verði nú vitni að merkilegu fyrirbæri, þar sem sé mikill flutningur á efni neðanjarðar. Eldgosið í nótt breytir engu þar um. „Það gerði smágos og það kom upp smásýni af því efni sem er á ferðinni," segir Páll en kveður þetta sáralítið af því efni sem er á ferð. „Eiginlega varla brotabrot."
Páll tekur undir með Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í jarðeðlisfræði, sem sagði í morgun að eldgosið væri hálfgert slys. „Gangurinn sem er á ferðinni villtist óþarflega nálægt yfirborðinu og það puðraðist upp úr honum smá kvika," segir Páll.
„Það stóð í kannski þrjá fjóra klukkutíma eða svo. Það er agnarsmátt," segir Páll. „Það gýs upp úr sömu gígunum. Gígarnir sem fólk sér þarna að rýkur úr eru 200 ára gamlir gígar að minnsta kosti."