Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar, segir ljóst að nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld sé ekki einföldun þótt það hafi verið ætlunin. Ljóst sé að veiðigjaldið lækki milli ára. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, telur frumvarpið til bóta þótt það séu vonbrigði að ekki eigi að taka tillit til lítilla og meðalstórra útgerða. Hann telur að veiðigjöld verði óbreytt samkvæmt frumvarpinu.

Stjórnarandstaðan fékk kynningu á frumvarpinu í hádeginu.  

Er að ykkar mati verið að lækka veiðigjaldið með þessu frumvarpi? „Já, það er greinilega mikil lækkun á milli ára þó að talað sé um einföldun, þá er þetta þó það flókið að við þurfum að skoða allar þessar forsendur og allar þessar breytur sem að eru forsendur fyrir veiðigjaldinu. Og það er auðvitað jákvætt að þetta skuli vera nær í rauntíma. Við fögnum því en fíllinn í herberginu stendur sem að er markaðsverð,“ segir Oddný. 

„Ég tel að þetta frumvarp sé til bóta varðandi útreikninga á veiðigjöldum það er að segja, ég held að þetta verði einfaldara og meiri sjálfvirkni í þessu og að þetta verði svona kannski skilvirkara eða augljósara fyrir þá sem greiða veiðigjöld,“ segir Gunnar Bragi. „Það eru hins vegar vonbrigði að ég get ekki séð að það sé verið að taka neitt á erfiðri stöðu lítilla og meðalstórra útgerða í þessu frumvarpi eða einhverjum tengdum frumvörpum og það eru vitanlega vonbrigði.  

Sýnist þér veiðigjaldið lækka eða standa í stað með þessu frumvarpi? „Sko, eins og þetta var kynnt fyrir okkur, þá sýnist mér að það sé gert ráð fyrir sömu gjaldtöku og verið hefur,“ segir Gunnar Bragi.