Ekki svigrúm til meiri vaxtalækkunar

17.05.2017 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stýrivextir Seðlabankans lækka um 0,25% niður í 4,75%. Fjármálaráðherra hafði lýst því yfir að réttast væri að bankinn lækkaði vexti duglega. Már Guðmundsson Seðlabankastjóri segir að ekki hafi verið svigrúm til meiri lækkunar. Hann telur óheppilegt að ráðherrar tjái sig um vaxtalækkanir bankans fyrir fram.

Seðlabankastjóri segir styrkingu krónunnar, lægri verðbólgu og hærri raunvexti skapa svigrúm til vaxtalækkunar. „Niðurstaðan varð þessi einkum vegna þess að verðbólga hefur þokast niður, raunvextir okkar hafa hækkað aðeins og gengi krónunnar hefur styrkst síðan á síðasta fundi. Það felur í sér aukið aðhald að eftirspurn og umsvifum, og það skapar þá svigrúm hjá okkur að vera með lægri vexti en ella,“ segir Már. 

Lítil áhrif á gengi krónunnar

Hann á ekki von á því að lækkun vaxta nú hafi áhrif á gengi krónunnar, en krónan er nú styrkari en hún hefur verið í tíu ár. „Þetta mun ekki hafa mikil áhrif. Gengisþróun hefur auk þess aðallega verið að ráðast af miklu innflæði vegna aukningar á ferðaþjónustu og þvílíku.“

Þá hafi aukin vinnuframleiðni og innflutt vinnuafl áhrif. „Sumir myndu segja að þetta sé mjög skrýtið, að við séum að lækka vexti þegar hagvöxtur er 7,3% í fyrra og 6,3% í ár í hagkerfi sem er þegar komið í spennu, en þarna hefur líka áhrif, vegna aukins innflutnings vinnuafls og aukinnar framleiðni, þetta gerir það að verkum að við getum vaxið hraðar en ella án þess að það slái út í spennu eða launaskriði,“ segir Már.

Óheppilegt að ráðherrar tjái sig í aðdraganda vaxtaákvörðunar

Fjármálaráðherra hefur sagt réttast að Seðlabankinn lækkaði vexti myndarlega, og forsætisráðherra sagði heppilegt ef bankinn lækkaði vexti. Már segir ekki hafa verið svigrúm til meiri lækkunar að svo stöddu. „Við lækkuðum vextina um það svigrúm sem núna var til staðar,“ segir Már.  

En finnst Má þessi orð þeirra setja Seðlabankann í erfiða stöðu? „Ja, nú er það almennt þannig í löndunum í kringum okkur að ráðherrar eru ekki mikið að tjá sig, þá sérstaklega fjármálaráðherrar, um vaxtaákvarðanir seðlabanka og peningastefnunefndar í aðdragandanum, af því að það gætu einhverjir haldið að það að við séum að lækka sé út af pólitískum þrýstingi - sem er ekki, þetta er mat á stöðunni, ég held að við höfum sýnt það að við látum slíkt ekki hafa á okkur áhrif. Þannig að það er þá spurning hvort þetta er óheppilegt fyrir viðkomandi sem er alltaf að tjá sig og við erum svo ekki að gera í samræmi við það,“ segir Már.