Þrátt fyrir ásakanir þriggja starfsmanna og tveggja fatlaðra vistmanna sem dvöldu á sumardvalarheimilinu í Nýjabæ hefur ekkert verið gert til að kanna hvort tugir fatlaðra sem þar dvöldu telji sig hafa orðið fyrir svipaðri reynslu. Þetta segir réttindagæslumaður fatlaðra.

Eins og fram kom í Kastljósi í gær hefur Ríkissaksóknari ákveðið að fella niður mál tveggja þroskaskertra kvenna sem kært höfðu mann fyrir kynferðisbrot. Konurnar dvöldu á sumardvalarheimili mannsins og konu hans. Þrír fyrrverandi starfsmenn heimilisins hafa lýst því að maðurinn hafi áreitt þær meðan þær unnu á heimilinu. Heimilið var rekið í rúman áratug og ár hvert dvöldu þar um 80-100 fatlaðir einstaklingar.

Í Kastljósi í kvöld verður áframhaldandi umfjöllun um kynferðisofbeldi gegn fötluðum konum og þær hindranir sem þær og aðstandendur þeirra telja sig mæta þegar mál þeirra eru kærð. 

Betur fylgst með hundum

Það vakti talsverða athygli þegar rannsókn á meintu kynferðisofbeldi á sumardvalarheimilinu Nýjabæ hófst í ársbyrjun 2014, að starfsemin hafði engin leyfi, umfram það sem venjuleg gistiheimili þurfa til rekstrar. Engar sérstakar kröfur væru gerðar til starfsfólks né bakgrunns þeirra. Rekstraraðilarnir í Nýjabæ höfðu sjálfir vakið athygli á þeim litlu kröfum sem gerðar voru til slíks reksturs, í tengslum við beiðni þeirra um styrki úr framkvæmdasjóði fatlaðra árið 2009. Sjóðurinn hafði þá hafnað umsókn þeirra á þeirri forsendu, að heimilið hefði ekki sérstakt leyfi. Í fréttum af málinu var bent á að rekstraraðilar sumarhótels fyrir hunda, hefðu þurft að undigangast mun strangari skilyrði frá hendi hins opinbera.

Hefði þurft frekari skoðun

Jón Þorsteinn Sigurðsson réttindagæslumaður fatlaðra á Vesturlandi og Vestfjörðum segir í Kastljósi í kvöld að hann viti ekki til þess að nokkur sérstök athugun hafi farið fram á því hvort aðrir gestir á heimilinu hafi upplifað samskonar áreitni og fimm konur hafa nú lýst. Jón segir að þess hefði þurft og félagsþjónustur þeirra sveitarfélaga sem höfðu milligöngu um að senda fólk á heimilið eða vita til þess að þeirra skjólstæðingar hafi farið þangað, hefðu átt að gera það.

Nánar verður fjallað um þetta í fréttum og Kastljósi í kvöld. Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins í spilaranum hér að ofan.