Ekki liðið að velvild Íslendinga sé misnotuð

17.01.2017 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin ætlar ekki að láta það átölulaust að menn misnoti velvild Íslendinga gagnvart stríðshrjáðu fólki, með tilhæfulausum hælisumsóknum. Þetta segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. Íslendingar hafi þó svigrúm til að taka á móti fleiri flóttamönnum en gert hefur verið til þessa.

Sigríður vill hraða málsmeðferð, til að stemma stigu við tilhæfulausum hælisumsóknum.

1132 sóttu um hæli á Íslandi á síðasta ári, 220% fleiri en árið 2015. Langflestir umsækjendur komu frá Albaníu og Makedóníu, en þeir fá fæstir hæli hér þar sem heimalönd þeirra eru talin vera örugg ríki.

Áhrifaríkast að hraða málsmeðferð

Utanríkisráðuneytið hefur leitað til annarra Evrópuríkja til að finna leiðir til að stemma stigu við svonefndum tilhæfulausum hælisumsóknum. Óljóst þykir hvernig standa megi að upplýsingagjöf í Albaníu og Makedóníu, um að litlar líkur séu á að hælisleitendur þaðan fái hæli á Íslandi. Ráðuneytið dregur þær ályktanir að áhrifaríkasta aðferðin sé að stytta málsmeðferðartímann, án þess að réttaröryggi hælisleitendanna sé ógnað.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra er sammála þessari greiningu. Vel hafi gengið að stytta afgreiðslutímann, allt niður í átta til níu daga, en í lok ársins hafi umsóknum fjölgað meira en svo að kerfið hafi getað annað því. Sigríður segir að það verði markmið hennar á næstu misserum að gera kerfið í stakk búið til að sinna hælisumsóknum fljótt og vel, óháð fjölda þeirra. 

„Við ætlum ekki að láta það átölulaust ef menn ætla að misnota þá velvild sem við viljum sýna og ég held að öll þjóðin vilji sýna stríðshrjáðu fólki, ef menn vilja misnota hana með tilhæfulausum umsóknum um hæli,“ segir Sigríður.

Geta sótt um atvinnu- og dvalarleyfi eins og aðrir

Í Evrópuskýrslunni sem utanríkisríkisráðuneytið styðst við kemur fram að flestir hælisleitendur frá Albaníu og Makedóníu tilheyri minnihlutahópum sem hafi takmörkuð atvinnutækifæri og aðgang að heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þeir séu því margir dæmdir til örbirgðar í heimalöndunum.

„Nú má ekki gleyma því að hér á Islandi höfum við háttí 30.000 erlenda ríkisborgara sem dvelja hér og starfa löglega,“ segir Sigríður. „Á ári hverju veitum við meira að segja 1000 manns ríkisborgararétt. Það er ekki um það að ræða að Ísland sé lokað land, heldur þvert á móti. Við fögnum því þegar fólk vill koma hingað og lifa og starfa. Þá möguleika hafa Albanir og Makedóníumenn eins og aðrir, til dæmis Bandaríkjamenn eða fólk frá Asíu. Menn fara þá bara löglegu leiðina, menn sækja um atvinnu- og dvalarleyfi, og þær dyr eru ekkert lokaðar þessu fólki frekar en öðrum útlendingum.“

Svigrúm til að taka á móti fleiri flóttamönnum

Ætlið þið að taka við fleiri flóttamönnum eða hælisleitendum en fyrri ríkisstjórn?

„Það er nefnt í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar að við ætlum að taka á móti fleiri flóttamönnum.“

Veistu hversu mörgum?

„Nei, það þarf að skoða það, Velferðarráðuneytið er líka með það, en við höfum alveg örugglega eitthvað svigrúm til að gera enn betur en við gerum í dag.“