Dæmi Mannréttindadómstóll Evrópu íslenska ríkinu í óhag í Landsréttarmálinu þýðir það ekki að dómarar við réttinn missi stöðu sína eða að dómar þeirra verði ógildir. Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson, skipaður dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn. „Þetta er ekki jafndramatískt og hefur verið teiknað upp,“ segir Davíð.

Davíð Þór er skipaður dómari við Landsrétt en er í leyfi vegna starfa sinna sem saksóknari í enduruppteknu Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Hann var áður dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, sem hefur kallað eftir svörum frá íslenska ríkinu vegna Landsréttarmálsins svokallaða. Davíð ritaði pistil um málið á vefsíðu sína í gær og tjáði sig svo frekar um það í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Enn ekki útilokað að málinu verði vísað frá

Davíð segir að málið hafi verið sent ríkisstjórninni óvenjulega hratt til umsagnar. „Það þýðir að það hefur komist í gegnum fyrstu síu vegna þess að annar möguleiki var sá að því yrði bara vísað frá án nokkurs eða mjög lítils eða takmarkaðs rökstuðnings,“ segir hann. Enn sé ekki útilokað að málinu verði vísað frá.

Fari svo að málið verði tekið til dóms sé það dálítið snúið. Davíð bendir á að almennt sé það ekki hlutverk Mannréttindadómstólsins að túlka íslensk lög, heldur íslenskra dómstóla. Í Landsréttarmálinu hafi Hæstiréttur þegar komist að sinni niðurstöðu: Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið lög með því að rannsaka málið ekki nógu vel áður en hún ákvað að gera breytingar á lista yfir dómaraefni. Þá finnur dómurinn að því að Alþingi hafi kosið um allan dómaralistann í einu en ekki hvern fyrir sig. Hins vegar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að einn dómaranna fjögurra sem Sigríður bætti á listann, Arnfríður Einarsdóttir, væri löglegur dómari.

„Það er ekkert endilega sennilegt að Mannréttindadómstóll Evrópu treysti sér til að endurskoða þessa túlkun íslenskra dómstóla á íslenskum lögum,“ segir Davíð Þór.

Hróflar hvorki við dómum né dómurum

Ef það gerist hins vegar og Mannréttindadómstóllinn dæmi gegn íslenska ríkinu segir Davíð að dómstóllinn sé ekki áfrýjunardómstóll þótt einhverjum kunni að finnast það skrýtið. „Hann getur ekki fellt úr gildi íslenska dóma. Hann getur ekki fellt úr gildi dóminn í þessu tiltekna máli, sem er bara mál þessa tiltekna einstaklings, og þaðan af síður getur hann fellt úr gildi alla dóma sem þessir fjórir dómarar hafa tekið þátt í að dæma í Landsrétti. Með öðrum orðum: Það verða engin slík áhrif,“ segir Davíð Þór.

„Dómur íslenska ríkinu í óhag hefur heldur ekki þau áhrif að það hrófli við stöðu þessara fjögurra dómara. Þeir verða áfram dómarar við Landsrétt,“ bætir hann við.

Fólk gæti krafist endurupptöku en vill það ekki endilega

Hann segir að dómurinn íslenska ríkinu í óhag hefði engu að síður þýðingu, til dæmis fyrir manninn sem fór með málið út til Strassborgar. Sá var dæmdur fyrir umferðarlagabrot í Landsrétti og fengi þá viðurkennt að réttur hefði verið brotinn á honum með því að láta Arnfríði dæma í máli hans. „Eftir atvikum gæti hann fengið einhverjar miskabætur sem yrðu mögulega ekkert sérstaklega háar,“ segir Davíð.

„En það sem gæti gerst er að þetta gæti mögulega gefið þeim einstaklingum sem hafa mátt þola dóm Landsréttar, þar sem einn af þessum dómurum situr, tilefni til að fara fram á endurupptöku málanna,“ segir Davíð. „Það er alls ekkert víst að þeir kæri sig neitt um það vegna þess að það er ekkert fyrirsjáanlegt – og því er ekkert haldið fram – að þessir dómari hafi verið rangir með neinum hætti,“ bætir hann við. Því gætu þeir alls ekki gert ráð fyrir að dómur félli á annan veg eftir endurtekna málsmeðferð.

Væri „mjög sérkennileg staða“

Við þessar aðstæður segir Davíð eðlilegt að menn mundu huga að því hvernig löggjafinn brygðist við til að koma í veg fyrir áframhaldandi lögbrot. „Þá sitja menn uppi með þann vanda að þetta eru skipaðir dómarar og þeir njóta ákveðinnar verndar,“ segir hann. Til að vernda sjálfstæði dómstóla kveði stjórnarskráin á um að þeim verði ekki vikið frá störfum nema með dómi. „Jafnvel þótt svo færi að dómur félli íslenska ríkinu í óhag þá er alls ekki augljóst hvernig við því verður brugðist,“ segir hann.

Davíð segir að ef til þessa kæmi yrði því uppi mjög sérkennileg staða. „Þessir dómarar væru fullskipaðir í sín embætti en þeir mættu ekki sinna störfum sínum – það er mjög sérkennileg og staða og ekkert endilega sennilegt að hún komi upp.“

Ekki trúaður á að MDE dæmi ríkinu í óhag

Davíð segist ekki telja líklegt að Mannréttindadómstóllinn dæmi ríkinu í óhag. „Mér finnst ekkert sérstaklega sennilegt að Mannréttindadómstóllinn fallist á þessar kröfur kæranda í málinu og það byggi ég á því að niðurstaða Hæstaréttar er byggð á túlkun Hæstaréttar sjálfs á íslenskum lögum,“ segir hann.

Ekki sé hægt að halda fram að niðurstaða Hæstaréttar beri merki geðþótta. „Hún er í sjálfu sér alveg málefnaleg og hún er skynsamleg og það er ekkert víst að Mannréttindadómstóllinn fari fram á neitt meira. Hann getur verið ósammála niðurstöðunni en hann getur samt fallist á hana vegna þess að það er hlutverk íslenskra dómstóla að túlka íslensk lög,“ segir hann.

Málið hefur verið óþægilegt

Hann segir hins vegar að helst til mikið hafi verið gert úr málinu. „Jafnvel þótt svo illa færi – skulum við segja – að íslenska ríkinu yrði dæmt áfelli þá er ekki eins og himinn og jörð séu að hrynja. Það er bara alls ekki þannig. Þetta er ekki jafndramatískt og hefur verið teiknað upp.“

Þrátt fyrir það segist Davíð ekki telja að málið sé stormur í vatnsglasi. „Af því að það hefur verið óþægilegt. Það verður að viðurkennast alveg eins og er – það skapar vissa réttaróvissu.“ Þess vegna telji hann að landsréttardómarar fagni því hvað málið virðist ætla að fá skjóta meðferð í Strassborg.