Það er ekki hægt að tala um þessa bók og það er heldur ekki hægt að lesa upp úr henni án þess að eyðileggja fyrir lesandanum. Þrátt fyrir þessi orð las Úlfar Þormóðsson upp úr bókinni Draumrof á fögnuði í tilefni útgáfunnar og að hálf öld er liðin frá því að hann sendi frá sér sína fyrstu bók, Sódómu Gómorru árið 1966. Og það sem meira er Úlafar mætti í þáttinn Orð um bækur og talaði um bókina.

Úlfar Þormóðsson fagnar fimmtíu ára rithöfundarafmæli með nýrri bók Draumrof. Fyrsta skáldsaga Úlfar Sómdóma-Gómorra kom út árið 1966 og Í kjölfarið fylgdu fleiri sögur um fólk í baráttu við lífið og sjálft sig ýmist í smáþorpum eða í höfuðborginni. Úlfar gerðist ritstjóri háðsádeiluritsins Spegillinn árið 1972 en gaf aðeins út tvö tölublöð ritsins því upplag annars þeirra var innkallað vegna skopmyndar af virtri stjórnmálakonu og var ritstjórnin - eða að minnsta kosti ritstjórinn - ákærð fyrir brot á lögum um klám og guðlast. Málið fór að endingu fyrir hæstarétt og fengu aðstandendur tímaritsins þar aðeins dóm fyrir hið síðarnefnda.

Eftir lok spegilsmálsins og fram eftir áttunda ártatugnum sendi Úlfar frá sér nokkrar bækur þar sem hann deildi hart á skipulag vildar í íslensku samfélagi og varð í raun nokkuð utangarðs í íslensku bókmenntalífi þótt hann héldi áfram að skrifa skáldsögur sem hann gaf flestar út sjálfur.

Árið 2000 varð nokkur kúvending í rithöfundarferli Úlfar þegar Almenna bókafélagið gaf út fyrstu sögulegu skáldsögu hans. Sú fjallaði um Tyrkjaránið og nefndist Hrapandi jörð í kjölfarið fygldi önnur skáldsaga um Íslendinga í Barbaríinu Rauð mold og nokkru síðar skáldsaga um Hallgrím Pétursson. Allt voru þetta miklar bækur, en fyrri bækur Úlfars höfðu flestar verið knappar. Þessum sögulegu skáldsögum var ágætlega tekið en líka var á þær var deilt. Með útgáfu Veraldar á bókum Úlfars um foreldra sína verður aftur nokkur kúvending í sagnagerð Úlfars. Þetta eru annars vegar bók um móður hans sem nefnist Farandskuggar og hins vegar Boxarinn sem fjallar um föður hans. Árið 2014 var svo komið að ævi hans sjálfs í bókinni Uggur. Brot úr ævi.

Og nú er sem sagt komin út ný skáldsaga eftir Úlfar Þormóðsson Draumrof þar sem hann virðist sumu leyti leita til upphafs síns í skáldsagnagerð. Þetta er til að mynda stutt skáldsaga og persónurnar -  sem nú eru orðnar eldri en þær voru í bókum Úlfars þegar hann var sjálfur yngri -  eru  enn að berjast við lífið og sjálfar sig en nú eru það ekki þorpið og höfuðborgin sem mynda sögusviðið heldur höfuðborgin og útlönd og hrunið kemur við sögu.