Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kveðst ekki bjartsýn á að loftslagsmarkmið náist fyrir árið 2030. Ef markmiðin eiga að nást þarf að takmarka hlýnun jarðar við eina og hálfa gráðu og minnka losun um fjörutíu og fimm prósent miðað við það sem hún var árið 2010. Síðan þá hefur losunin hins vegar aukist.

Ný skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna staðfestir það sem áður var vitað en hún er vissulega harðorðari en fyrri skýrslur, að sögn Katrínar. Nú sé verið að ýta við fólki og það sé jákvætt þó að horfurnar séu ekki góðar.

Þróunin í ranga átt á undanförnum árum

„Ég er ekki endilega bjartsýn, nei. Af því að við höfum því miður séð þessa hluti þróast í ranga átt á undanförnum árum. En það breytir því ekki að skyldan er rík en það sýnir okkur líka að við þurfum að huga að ýmsu fleiru og það er eitt af því sem allar þjóðir eru að horfa til núna. Hvernig ætla þær að bregðast við þeim loftslagsbreytingum sem verða þó að okkur takist að snúa vörn í sókn,“ sagði forsætisráðherra í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Bjartsýni ríkjandi eftir ráðstefnu í París 2015

Katrín var ein þeirra íslensku þingmanna sem sátu loftslagsráðstefnuna í París árið 2015 og segir að þar hafi hart verið tekist á um það hvort stefna ætti að markmiði um að halda hlýnun jarðar við 1,5 eða 2 gráður. Samkomulag hafi náðst um 1,5 gráðu eftir mikla baráttu eyríkja sem eiga framtíð sína undir því að losun minnki mikið á næstu árum. Forsætisráðherra segir að eftir ráðstefnuna hafi almennt ríkt bjartsýni í loftslagmálum en að síðan hafi þróunin ekki verið nógu góð, til dæmis hafi Bandaríkin dregið sig út úr samkomulaginu. 

Mikilvægt að stjórnvöld byggi upp innviði

Hvað varðar stöðu mála hér á landi segir Katrín að meðal annars þurfi að skoða hvernig hægt sé að efla matvælaframleiðslu þannig að landsmenn verði síður háðir innflutningi á matvælum. Þá sé einnig mikilvægt að skipta um orkugjafa og minnka innflutning á olíu. Þá sé rafvæðing hafna mikilvægt skref sem og kolefnisbinding. Loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar sé fyrsta skrefið en hún verði endurskoðuð árlega. Mikilvægt sé að stjórnvöld fari á undan almenningi með góðu fordæmi og byggi upp innviði, til dæmis fyrir rafvæðingu samgangna.