„Það er ekki alveg hægt að alhæfa um að fólk kunni ekki að keyra af því að við sjáum það að þessir erlendu gestir okkar eru í miklu meiri hættu á því að verða fyrir slysi af völdum Íslendings en Íslendingar af þeirra völdum,“ segir Þórhildur Eliínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.
Rætt var við Þórhildi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Þar kom meðal annars fram að kínverskir ferðamenn hafa undanfarin ár lent hlutfallslega oftar í umferðarslysum hér á landi en ferðamenn frá öðrum löndum. Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að brugðist hafi verið við þessu með sérstöku átaki og upplýsingagjöf í samstarfi við kínverska sendiráðið hér og íslenska sendiráðið i Kína.
Þórhildur segir að Samgöngustofa sinni slysaskráningu eftir lögregluskýrslum. Þar skeri Kínverjar sig úr. „En við sjáum það líka að það eru ekki alltaf Kínverjar sem valda slysinu en þeir hafa verið áberandi.“
Ekki hægt að alhæfa um aksturshæfni
Þórhildur segir að auðvitað sé ekki gott ef fólk fer óþjálfað út á vegina en það sé ekki algilt. Auk samstarfsins við sendiráðin hafi upplýsingagjöf verið aukin á netinu og henni beint til þeirra sem leita upplýsinga um Ísland og til dæmis um bílaleigur hér. Þá verði að taka inn í reikninginn að aðstæður hér á vegum eru allt aðrar en gengur og gerist víðast annars staðar.
„Það er ekki alveg hægt að alhæfa um að fólk kunni ekki að keyra af því að við sjáum það að þessir erlendu gestir okkar eru í miklu meiri hættu á því að verða fyrir slysi af völdum Íslendings en Íslendingar af þeirra völdum. Það er magnað að sjá hversu mikið það hefur breyst. Hættan fyrir erlendan gest hefur fjórfaldast af völdum Íslendings, á meðan hættan fyrir okkur, ef við tökum okkur í sinnhvoran hópinn, sem hér búum, það hefur dregið úr henni.“
Ekki kom fram í viðtalinu hvernig útreikningum Samgöngustofu er háttað fjallað verður um slysatölfræðina á Umferðarþingi Samgöngustofu.
Upplýsingar festar á stýri bílaleigubíla
Þórhildur segir að bílaleigur hafa sýnt mikla ábyrgð í að fræða sína viðskiptavini. Samgöngustofa hafi verið í samstarfi við bílaleigur í upplýsingagjöf. „Stýrispjöld eru upplýsingabæklingar og hanga á stýrum allra bílaleigubíla og eiga að gera það. Ferðamaðurinn kemst ekki hjá því að sjá bæklinginn. Hann liggur ekki bara í sætinu og auðvelt að henda í hanskahólfið heldur þarf fólk að taka hann beinlínis af. Þetta er mjög skýrt og skilmerkilegt. Þetta eru vetrarspjöld og sumarspjöld þannig að það er reynt að miða við þær aðstæður sem eru uppi hverju sinni.“
Ferðamönnum fjölgar mikið en hlutfallslega fækkar alvarlegum slysum. Þórhildur segir að þó megi enn bæta umferðarhegðunina. „Áróður til ferðafólks hefur skilað árangri og ferðamaður 2017-2018 er öruggari en 2015.“
Fréttinni var breytt 5.október 2018 kl. 10:15 þannig að ummæli viðmælanda voru sett í beina ræðu í stað óbeinnar í inngangi.