„Eftir ítarlega skoðun síðustu daga mátum við stöðuna þannig að rekstur Wow og fjárhagsstaða er með þeim hætti að það væri ekki áhættunnar virði að halda áfram,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Forsvarsmenn Icelandair ákváðu í dag að slíta viðræðum um kaup á Wow Air eða eignum þess. Bogi segir að allar sviðsmyndir hafi verið skoðaðar í viðræðum Icelandair og Wow Air.

„Þær beindust að því að finna möguleika á kaupum okkar á eignum eða öllum rekstri Wow Air. Við skoðuðum í rauninni allar sviðsmyndir, hvort við gætum búið til virði fyrir okkar félag í samstarfi við Wow Air. Þetta var niðurstaðan,“ segir Bogi um viðræðurnar.

Icelandair og Wow Air ræddu samruna félaganna fyrr í vetur en Icelandair hætti við. „Það voru upplýsingar um að það gætu orðið ákveðnar forsendubreytingar hvað varðar skuldastöðu og þess háttar Wow Air. Þess vegna ákváðum við að fara aftur af stað. Það eru alltaf samlegðaráhrif í svona rekstri. Þetta eru félög sem eru bæði á Íslandi að reka flugvélar með starfsfólk og ýmislegt sem getur verið stærðarhagkvæmni og þess háttar. Þess vegna ákváðum við að skoða málið aftur.

Bogi segir að ríkisstjórnin hafi verið upplýst um gang viðræðna en að enginn þrýstingur hafi verið á að Icelandair ræddi við Wow Air.

Fréttin hefur verið uppfærð.