Ekki er minnst á hjúkrunarheimili í drögum að heilbrigðisstefnu og skorið er niður til þeirra í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé talað um að gera eigi átak í að fjölga þeim. Þetta segir Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Hann segir að drífa þurfi í að fjölga hjúkrunarheimilum vegna biðlista og kallar eftir stefnu stjórnvalda.
Ekkert gengur í viðræðum um rammasamning
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu reka á milli 40 og 50 hjúkrunarheimili á landinu. Rammasamningur var gerður um rekstur þeirra í fyrsta skipti árið 2016 og rennur hann út um áramótin. Pétur segir að ekkert hafi gengið í viðræðum samtakanna og Sjúkratrygginga um endurnýjun samningsins.
„Það sem hefur gerst í millitíðinni er að framlög til hjúkrunarheimila hafa lækkað og þá jafnframt komið fram nýjar kröfur frá ríkinu til hjúkrunarheimila um aukna þjónustu frá því sem áður var. Og það eru hlutir sem við á hjúkrunarheimilunum erum ekki ásátt um, að samþykkja slíkan samning. Við viljum að greiðslur og þjónusta haldist í hendur þannig að kjörin sem verið er að bjóða okkur séu að minnsta kosti sambærileg við það sem var árið 2016 þegar síðasti samningur var gerður.“
Skorið niður til hjúkrunarheimila
Um þrjátíu milljarðar króna fara í rekstur hjúkrunarheimila á ári samkvæmt rammasamningnum. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er boðaður niðurskurður.
„Það hefur verið boðaður í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hálfs prósents niðurskurður á hjúkrunarheimili, var 2018 og boðaður aftur 2019 og á næstu árum. Og þó að hálft prósent sé kannski ekki óyfirstíganlegt í sjálfu sér einu sinni þá höfum við bara mjög miklar áhyggjur af þessari þróun sem verður á næstu árum og sérstaklega þar sem eru að koma nýir kröfuliðir inn í þjónustuna eins og um persónuvernd sem að ekkert fjármagn fylgir. Þannig að rekstrarumhverfið er að skekkjast verulega og það er í rauninni áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir beinlínis að það eigi að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila. En þetta er annað fjárlagafrumvarp sem núverandi ríkisstjórn leggur fram og við trúum því ekki fyrr en við sjáum það að þeir ætli annað árið í röð að lækka rekstrargrunninn en ekki hækka eins og stjórnarsáttmálinn segir.“
Talað um stórsókn í uppbyggingu í stjórnarsáttmála
Orðrétt segir í stjórnarsáttmálanum: „Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar." Ennfremur segir í sáttmálanum: „Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu."
Nýlega kynnti heilbrigðisráðherra drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Ekkert um hjúkrunarheimili í drögum að heilbrigðisstefnu
„Í þeim drögum sem eru komin fram höfum við hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónstu, þar sem hjúkrunarheimilin eru innanbúðar, haft töluverðar áhyggjur af því að það er í rauninni ekkert talað um hjúrunarheimili í þessum drögum. Orðið hjúkrunarheimili bara kemur ekki fyrir á þeim 17 glærum sem eru notaðar til að kynna þessa stefnu eins og hún stendur núna. Og það er ákveðið áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að um 10% af útgjöldum til heilbrigðismála fara til hjúkrunarheimila. Þannig að ég myndi halda að hjúkrunarheimilin væru ansi stór þáttur í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Og jafnframt hefur komið nýlega fram bæði í gögnum á vegum embættis landlæknis og núna í pistli forstjóra Landspítalans, fyrir einum til tveimur vikum, að hópur aldraðra sem er inni á spítalanum, sem kominn er með færni- og heilsumat og bíður eftir hjúkrunarrými, þessi listi og þessi hópur hefur aldrei verið stærri en einmitt nú.“
Forstjóri Landspítalans sagði í pistli frá 17. nóvember að útskriftarvandi aldraðra hefði náð áður óþekktum hæðum. Um 130 manns væru á spítalanum í senn sem lokið hefðu meðferð og færni- og heilsumati og biðu eftir að komast á hjúkrunarheimili.
Landlæknir hefur áhyggjur
Nokkrum dögum áður hafði embætti landlæknis lýst yfir áhyggjum af þessari þróun og bent á að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hefðu lengst umtalsvert. Í september 2018 biðu að meðaltali 411 eftir slíku rými en fyrir ári 342. Fjölgun á landsvísu nemur því 20%.
Pétur segir að það vanti stefnu. „Hvert á þjónustustig hjúkrunarheimila á Íslandi að vera? Á það að vera svipað og í dag? Þá þarf að spýta verulega í lófana. Nú, ef við ætlum að breyta um stefnu í sambandi við hjúkrunarheimili og fara að horfa til landa eins og Danmerkur til dæmis, sem er okkar næsti nágranni, þar er t.d. mun lægra þjónustustig almennt á hjúkrunarheimilum heldur en er á Íslandi. Þannig væri hægt að spara peninga í sjálfu sér ef ríkið vill gera það en þá færist náttúrlega vandinn og sú þjónusta sem hjúkrunarheimili eru að veita að stórum hluta í dag yfir á einhvern annan sem væri þá spítalinn eða eitthvað þess háttar. Þarna vantar stefnu og við köllum eftir því.“
Bráðabirgðadeild á Vífilsstöðum ennþá opin
Fyrir rúmum fjórum árum var opnuð deild á Vífilsstöðum og voru sjúklingar sem ekki hafði verið hægt að útskrifa af Landspítalanum fluttir þangað. Deildin átti að létta á álaginu á spítalanum og var hugsuð til bráðabirgða.
„Núna eru liðin fjögur ár, bráðum fimm ár, síðan þessi deild opnaði og jafnvel þó að opni ný hjúkrunarheimili á Íslandi á næsta ári á höfuðborgarsvæðinu þá erum við ekkert að sjá að þessi bráðabirgðadeild sé neitt að fara að loka og það er auðvitað mikið áhyggjuefni.“
Pétur segir að þó svo rammasamningurinn renni út um áramótin haldi rekstur hjúkrunarheimilanna áfram. „En auðvitað trúi ég ekki öðru en að gengið verði frá samningi bara mjög fljótlega eftir að fjárlögin liggja fyrir.“ En samningurinn leysir ekki vandann. Hvað þarf að gerast til að leysa vandann ef þú fengir að ráð því sjálfur hvað viltu sjá gerast? „Sem bráðaaðgerð þarf náttúrlega að drífa í því að fjölga hjúkrunarheimilum og ég held að það þurfi að gera þá einhvers konar bráðabirgðahjúkrunarheimili eða alla vega byggja þau þá mjög hratt, hraðar en verið hefur.“
En einnig þurfi að efla endurhæfingu og forvarnir. „Þannig að í stuttu máli þyrftum við að leggja fram mjög markvissa áætlun um forvarnir og endurhæfingu þannig að fólk þurfi síður að leggjast inn á spítala og seinka því að fólk fari inn á hjúkrunarheimili. Þannig í rauninni léttum við á öllu kerfinu og spörum peninga og þennan vinkil vantar alveg í núverandi drög að heilbrigðisstefnunni.“