„Það var ekkert sem greip okkur systkinin,“ segir Birna Dröfn Jónasdóttir sem missti föður sinn tólf ára. Áhugahópur um hag barna við fráfall foreldris efndi í dag til málþings í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar um stöðu barna sem misst hafa foreldri - undir yfirskriftinni Hvað verður um mig?

Hundrað og eitt barn missir að jafnaði foreldri ár hvert á Íslandi. Á síðustu tíu árum hafa ríflega þúsund börn misst foreldri, fleiri drengir en stúlkur. Alls létust um 650 foreldrar á tímabilinu, mun fleiri feður fleiri en mæður.

Andlátin mátti í flestum tilfellum rekja til illkynja æxlis, sem reyndist vera dánarorsök í tæplega 40% tilvika.

Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur síðustu ár verið aðalhvatamaður að starfi hópsins sem að málþinginu stóð. Hann hefur persónulega reynslu af slíkum málum en fyrir nokkrum árum lést dóttir hans eftir erfið veikindi. Hún lét eftir sig ungan dreng. „Ef við setjum okkur í spor ungra foreldra, foreldra sem eru að deyja. Hvað er það síðasta sem við hugsum um? Það er ekki að hugsa um eigin heilsu. Það er að hugsa um hvað verður um börnin mín. Og síðustu orðin eru yfirleitt: „Viljiði passa upp á börnin mín.“

Í meðförum þingsins er frumvarp um breytt og bætt verklag í aðstoð við börn sem hafa misst foreldri. „Ég er eindreginn stuðningsmaður þess og þá er komið lagaumhvefi sem þarf til þess að styðja þessi börn og grípa þau þar sem þau eru stödd,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Birna Dröfn Jónasdóttir hélt erindi á málþinginu en hún missti föður sinn skyndilega sem barn og móður sína úr krabbameini á fullorðinsárum. „Mér finnst bara skrýtið þegar ég hugsa til baka hversu lítið mætti mér þegar ég var 12 ára og missti pabba minn. Það var ekkert sem greip okkur systkinin,“ segir Birna Dröfn. „Mér finnst brýnast að það fari eitthvað ferli í gang sem gerir það að verkum að það sé ekki tilviljanakennt hvort börn fái aðstoð eða ekki ef þau missa foreldri sitt. Mér finnst að öll börn eigi að fá aðstoð þegar að þau lenda í svona stóru áfalli.“