Það hefur verið mikil uppbygging í Reykjanesbæ undanfarin ár tengd ferðaþjónustunni, meðal annars WOW. „Fyrir 20 árum bjuggu um 10 þúsund manns í bænum en nú erum við 19 þúsund," segir Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs og bendir á að um 24% íbúa bæjarins séu af erlendum uppruna.
Hann telur að sex til sjö hundruð íbúar í Reykjanesbæ gætu misst vinnuna vegna gjaldþrotsins. Flugfélagið WOW hætti rekstri í morgun og öllu flugi var aflýst.
Aðrir ráði fólk sem missir vinnuna
Friðjón hvetur önnur fyrirtæki í flugrekstri, séstaklega Icelandair, til að ráða það fólk sem nú missir vinnuna, í stað þess að ráða nýtt fólk erlendis frá.
„Við höfum verið í góðu sambandi við þessi fyrirtæki og fengið upplýsingar um stöðuna jafnt og þétt. En það er kannski ekkert sem undirbýr okkur undir svona áfall, því miður."
Áhrifin á bæinn gríðarleg
„Þetta er mikið áfall fyrir íslensku þjóðina og sérstaklega Reykjanesbæ. Við höfum verið að funda með Vinnumálastofnun og verkalýðshreyfingunni á undanförnum vikum," segir Friðjón. Bæjaryfirvöld hafa vonað það besta en jafnframt reynt að undirbúa sig sem best.
„Við gerum ráð fyrir að þetta séu um sex til sjö hundruð manns [ í Reykjanesbæ innsk. blm. ] sem verða fyrir áhrifum af þessu áfalli. Þetta er blanda af starfsmönnum WOW og starfsmönnum allra þeirra fyrirtækja sem koma að þessum flugrekstri; hlaðmenn, veitingastaðir, rútufyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki. Þannig að í heildina er ég að hugsa um að þetta sé í kringum 6-700 manns, en við fáum nánari tölur um þetta á næstu dögum."
Hann segir ljós að áhrifin af þrotinu séu gríðarleg. Næstu skref séu fyrst og fremst að fá upplýsingar frá Vinnumálastofnun um þá sem missa vinnuna, en þær upplýsingar fáist ekki alveg strax.