Nemendur í Hagaskóla í Vesturbæ Reykjavíkur safna nú undirskriftum gegn því að 14 ára skólasystir þeirra frá Afganistan, Zainab Safari, verði send úr landi ásamt móður sinni og yngri bróður. Undirskriftirnar ætla þau að afhenda Útlendingastofnun.
Nemendafulltrúar, réttindaráð og nemendaráð hlustaði í síðustu viku á Zainab segja sögu sína af því hvernig hún endaði á Íslandi. „Öllum fannst þetta mjög átakanleg saga og voru meira og minna grátandi og okkur fannst við bara verða að gera eitthvað í málinu en ekki bara sitja hjá og horfa á þetta gerast,“ sagði Birna Júlía Þorsteinsdóttir, nemandi við Hagaskóla, í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Grétu við að hlusta á frásögn Zainab
Zainab og fjölskylda eru Afganir. Fjallað var um mál þeirra í Stundinni á dögunum og þar kom fram að þau hafi flúið heimalandið og búið um skeið í Íran. Birna Júlía segir að það hafi verið átakanlegt að hlusta á reynslu Zainab sem hafi aldrei á ævinni búið við öryggi. Hún hafi gengið frá Íran til Tyrklands í djúpum snjó og farið með lélegum bát yfir hafið til Grikklands. „Þetta var mjög hræðilegt og ekkert barn á að hafa lent í þessu,“ segir Birna Júlía.
Óttast að fjölskyldan lendi á götunni í Grikklandi
„Flestir nemendur og krakkar eru sammála um að of margir [flóttamenn] séu reknir úr landi. Við viljum breyta því af því að við getum það,“ sagði Elín Sara Richter, sem einnig er nemandi við Hagaskóla, í Morgunútvarpinu. Hún telur að ef stjórnvöld myndu setja sig í spor flóttafólks myndu þau ekki vísa svo mörgum úr landi.
Zainab og fjölskylda bjó á götunni í Grikklandi og óttast Elín Sara og Birna Júlía að þeirra bíði ekkert annað verði þau send þangað á ný. „Við viljum ekki að hún verði send til Grikklands þar sem hún mun enda og götunni og ekki fá neina menntun. Við viljum bara að hún fái að halda áfram að vera í Hagaskóla með okkur,“ segir Birna Júlía.
Afhenda undirskriftir í vikunni
Undirskriftasöfnunin var stöðvuð í síðustu viku þar sem talið var að hún byrti í bága við persónuverndarlög. Í fyrstu var hún á vegum réttindaráðs skólans, sem í eiga sæti sex nemendur og fimm fullorðnir, nemendafulltrúa og nemendafélags. Foreldrar tveggja barna gerðu athugasemdir við fyrirkomulagið og var söfnunin því stöðvuð. Nú eru það aðeins nemendur sem standa að henni og segja Birna Júlía og Elín Sara að því sé hún leyfileg núna. Nemendur leituðu ráða hjá Umboðsmanni barna og Persónuvernd. Þær benda á að í 12. og 13. grein Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna segi að börn hafi rétt á að tjá skoðun sína. Þau njóti mikils stuðnings kennara og foreldra við söfnunina.
Undirskriftasöfnuninni hefur verið deilt á Facebook og geta allir skrifað undir, ekki aðeins nemendur í Hagaskóla. Stefnt er að því að afhenda Útlendingastofnun undirskriftirnar næsta fimmtudag.