Assad Sýrlandsforseti sakar vestræn ríki um óheiðarleika sem tefji friðarferli í Sýrlandi. Björgun drengsins, sem seinna varð þekktur sem andlit Aleppo, hafi verið sett á svið.

Rússar og Sýrlendingar boðuðu hlé á loftárásum á Aleppo í dag svo almennir borgarar gætu forðað sér. Átta rússnesk herskip eru nú undan ströndum Noregs en stefnan er sett á Miðjarðarhafið. Samkvæmt rússneskum miðlum er þetta stærsti floti sem hefur farið um Norður-Atlantshaf í rúm tvö ár. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir að stríðsátökin verði rædd á fundi leiðtogaráðs í kvöld og á morgun. Hann segir að ESB ætti ekki að útiloka að beita frekari refsiaðgerðum ef stríðandi fylkingar gerist áfram sekar um stríðsglæpi. 

Assad Sýrlandsforseti ræddi ástandið í landinu við svissneska ríkissjónvarpið í gærkvöld. Hann hafnar því að stjórnarherinn hafi framið stríðsglæpi. Stríðið hafi þó ýmsar hörmungar í för með sér og þar séu almennir borgarar því miður ekki undanskyldir. Hann segir að vestræn ríki hafi reynt að hagræða sannleikanum með ýmsum hætti, sérstaklega í Aleppo. Björgun Omran Daqneesh, drengsins sem seinna varð þekktur sem andlit Aleppo, hafi verið sett á svið. Hann segir að báðum hafi verið bjargað af liðsmönnum Hvítu hjálmanna. Hvítu hjálmarnir eru björgunarliðar í Aleppo en Assad segir að þeir séu ekkert annað en útibú frá hryðjuverkasamtökunum Al-Nusra. Omran og systkinum hans var bjargað í ágúst. „Þeim var bjargað í sitt hvoru atvikinu og þetta var allt saman kynnt af Hvítu hjálmunum, ekkert af þessu er rétt,“ segir Assad.