Eiturlyfjalögum breytt í Íran

13.08.2017 - 16:33
Erlent · Asía · Íran · Stjórnmál
epa01183226 Bags containing pills of drugs, a substance of Captagon, found with a scanner in Beirut port, 26 November 2007. A scanner used by the Lebanese Directorate of Customs revealed the pills contained in bags inside a passenger bus coming from the
 Mynd: EPA
Íranska þingið samþykkti í dag viðauka við eiturlyfjalög landsins eftir umræður sem stóðu í marga mánuði. Samkvæmt þeim mega smyglarar vera með meira af eiturlyfjum í fórum sínum en áður án þess að eiga á hættu að verða dæmdir til lífláts verði þeir gripnir. Æðstaráð landsins verður að samþykkja viðaukann til þess að hann öðlist gildi.

Samkvæmt upplýsingum mannréttindasamtakanna Amnesty International var Íran eitt þeirra fimm ríkja í heiminum sem oftast beittu dauðarefsingu í fyrra. Flestir voru teknir af lífi með hengingu fyrir að hafa brotið eiturlyfjalögin. Hingað til hafa menn verið teknir af lífi sem náðust með þrjátíu grömm eða meira af eiturlyfjum, svo sem heróíni, kókaíni eða amfetamíni. Lágmarkið verður hækkað í tvö kíló. Fyrir efni á borð við ópíum og marijúana verður lágmarkið aukið úr fimm kílóum í fimmtíu.

Um það bil 5.300 fangar bíða aftöku fyrir viðskipti með eiturlyf. Nýju lögin verða afturvirk. Lífi töluverðs hluta fanganna verður þyrmt ef hið íhaldssama æðstaráð Írans samþykkir þau.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV