Há húsaleiga sem atvinnurekendur innheimta af starfsfólki sínu er eitt af elstu brögðunum í bókinni hjá kapítalistum við að ná launagreiðslunum til baka. Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í umræðu um stöðu verkafólks. Hún sagði að tryggja þyrfti rétt verkalýðsfélaga til að fara yfir frádráttarliði á launum verkafólks til að ganga úr skugga um að ekki sé verið að svindla á fólki.

Staða erlends launafólks á íslenskum vinnumarkaði var til umræðu í Silfrinu á RÚV í morgun. Tilefnið var umfjöllun Kveiks í vikunni um það hvernig brotið er á rétti launafólks.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði að hagsmunum verkafólks hefði verið ýtt til hliðar. Hún spurði hver hefði talað fyrir þeirra hönd í stjórnmálum. Hún sagði að ef enginn pólitískur vilji væri til að tryggja hag verkafólks yrði staðan eins og hún sé núna. Hún sagði að tryggja verði heimild stéttarfélaga til að hafa eftirlit með frádráttarliðum af launum

„Það verður að tryggja líka, ef ástandið er þannig að vinnuaflið er algjörlega upp á atvinnurekendur komið með húsnæði, að það sé þá í lögum og það sé farið eftir því að það sé ekki verið að rukka vinnuaflið um svona gríðarlega háar upphæðir. Þetta er eitt af elstu trixunum í bókum kapítalista að reyna með öllum hætti að ná tekjum til baka, að þetta verði líka stöðvað.“ Hún sagði að byggja yrði upp gott húsnæðiskerfi svo fólk hefði tryggt þak yfir höfuðið. „Ég held til dæmis að ástandið sé þannig að við verðum að fara að líta á til dæmis þetta aðflutta verkafólk sem er í þessum skelfilegu aðstæðum sem þolendur efnahagslegs ofbeldis,“ sagði Sóveig Anna. Hún sagði að stéttarfélögin og hið opinbera þyrftu að tryggja húsnæði sem hægt væri að útvega fólki sem brotið væri á.

Vantar yfirsýn og lokaábyrgð

Dagný Aradóttir Pind vinnuréttarsérfræðingur sagði að löggjöfin á Íslandi sé að mörgu leyti góð. Það vanti hins vegar yfirsýn og að skýrt sé hver taki lokaábyrgðina í málum sem þetta snertir. „Eitt sem mér hefur þótt vanta er að ef það er brot á kjarasamningum ertu með einkaréttarkröfu, skaðabótakröfu, en það eru engin viðurlög við því. Við þekkjum til dæmis um dæmi af Norðurlöndum að það er búið að semja um skaðabætur í kjarasamningum. Þetta væri hægt að gera í kjarasamningum. Þetta er líka hægt að gera í löggjöf.“

Dagný benti á að hver og einn starfsmaður þyrfti að leita réttar síns. Þannig væri umhverfið sem hún starfar í þegar einhver leitar til hennar sem telur atvinnurekanda hafa brotið á sér. „Ég get ekki farið að fá launaseðla hjá öllum starfsfélögum hans.“ Hún velti því upp hvort taka ætti upp svipaðar aðferðir við að kanna launamun eftir þjóðerni og teknar hafa verið upp með jafnlaunastaðli vegna launamuns kynjanna.

Verkalýðshreyfingin missti afl sitt

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, sagði að í sinni æsku hefði verkalýðshreyfingin verið eitt öflugasta aflið í samfélaginu. Hann spurði hvenær og hvers vegna þetta hefði breyst. Sólveig Anna sagði að svona hefði þetta líka verið í sinni æsku en að hún minntist þess að farið hefði að fjara hratt undan hugmyndum um réttlæti til handa vinnuaflsins þegar hún var unglingur. Hún nefndi nýfrjálshyggju sem forsendu fyrir þessu og stóru lygina sem væri kenningin um að efnahagsleg gæði seytluðu niður frá þeim ríkustu til þeirra efnaminni.

„Af hverju misstuð þið þetta hugmyndafræðilega frumkvæði sem verkalýðsforystan hafði um skeið?“ spurði Styrmir og Sólveig Anna sagði að sér virtist sem verkalýðsforystan hefði hætt að sækjast eftir því að hafa mikil pólitísk völd í samfélaginu.