Ingi Þór Steinþórsson er tekinn við liði KR í körfuknattleik á nýjan leik en hann þjálfaði meistaraflokk liðsins síðast árið 2004. Hann var einnig aðstoðarþjálfari hjá Benedikti Guðmundssyni þegar liðið vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2009.

Ingi Þór hefur þjálfað lið Snæfells frá því árið 2009 og hafði ætlað sér að þjálfa þar í eitt ár í viðbót. Hann átti þó erfitt með að hafna KR sem hann hefur alla tíð stutt.

„Við ætluðum okkur, fjölskyldan, að vera eitt ár í viðbót í Hólminum og vorum búin að gera öll plön til þess og vorum bara sátt við það en svo þegar símtalið kom frá Böðvari [Guðjónssyni, formanni körfuknattleiksdeildar KR] þá verð ég að viðurkenna, fóru allar tilfinningar í gang og það var bara mjög erfitt að segja nei.“

„Þetta er engin lygi, einu sinni KR-ingur alltaf KR-ingur, ég hef aldrei verið eitthvað annað en KR-ingur. Maður flýr ekkert uppruna sinn og ég er bara mjög stoltur að hafa fengið þetta starf, þetta tækifæri og það var enginn vafi hjá mér.“

Ingi Þór skrifaði undir fjögurra ára samning við KR en hann verður einnig yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu.

„Þú ert að flytja með allt batteríið og það er ekkert grín. Hugurinn stefnir á að gera KR enn betra en það er og mig langar til þess að það líði öllum vel, þar á meðal mér. Til þess þarf maður tíma, þannig að það er mjög gott að fá traustið og að samningurinn sé í þessari lengd.“

Ingi ræðir einnig væntingarnar hjá félaginu en liðið hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð. Þá er einnig komið inn á Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox sem framlengdu samninga sína við KR í dag.

Viðtalið við Inga Þór má sjá í heild sinni hér að ofan.

Hér fyrir neðan má sjá frétt Einars Arnar Jónssonar frá árinu 2000 þegar KR vann titilinn undir stjórn Inga Þórs. Í innslaginu má m.a. sjá Jón Arnór Stefánsson í liði KR en hann var einmitt að skrifa undir nýjan samning í dag.