Staðfest hefur verið að manngerður hellir sem fannst í Odda á Rangárvöllum sé sá elsti sem fundist hefur á Íslandi. Þetta eru niðurstöður fornleifarannsóknar frá því í fyrrasumar.
Rannsóknin er hluti af Oddarannsókninni sem er samstarfsverkefni Oddafélagsins og Fornleifastofnunar Íslands. Niðurstöður hennar sýna að djúpar og langar lautir í Hellirsdölum í Odda eru fallnir manngerðir hellar. Grafnir voru tveir könnunarskurðir. Í öðrum skurðinum var grafið í stóran, fallinn helli en í hinum var komið niður á minni, uppistandandi helli og forskála framan við hann.
Innsiglaður í 800 ár
Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, segir að það sé einstakt að finna uppistandandi helli sem hefur verið innsiglaður í 800 ár og þarna gefst tækifæri til að rannsaka mannvirki sem hafi ekki verið rannsökuð áður. Þarna komist þau í óhreyfð gólflög og geta þá sagt til nákvæmlega um aldur hússins og hvernig það hafi verið notað. Þá geti þau séð hvort þetta hafi verið fjós, skepnuhús af öðru tagi, skemma eða búr.
Kristborg segir að fundurinn sé vísbending um að það séu víða uppistandandi, manngerðir hellar sem hafi lokast af og telur ástæðu til að skoða fleiri svæði með það í huga.
Elsti manngerði hellir á Íslandi
Allt bendir til þess hellarnir hafi verið tengdir og að gengt hafi verið á milli þeirra. Þá hefur verið staðfest að annar þeirra, sá minni, sé sá elsti sem fundist hefur á Íslandi. Kristborg segir að minni hellirinn sé eins konar hliðarhellir út frá þeim stóra. Hann hafi sennilega verið grafinn út á 10. öld skömmu eftir að gjóskulag úr Kötlu frá 920 féll. Þessir hellar hafi því verið í noktun á 10. og 11. öld og fallið úr notkun á 12. öld þegar stærri hellirinn hrundi. Ekki er víst að hellarnir hafi verið grafnir út á sama tíma og kann sá stærri að hafa verið grafinn út á undan þeim minni en það fæst ekki staðfest án frekari rannsókna.
Líkur á að þetta sé þekktur nautahellir
Ýmislegt bendir til þess að stærri hellirinn sé svokallaður nautahellir sem getið er í Jarteinabók Þorláks helga biskups frá 1199. Tímasetningin á hruninu á stóra hellinum passar ágætlega við frásögnina í Jarteinabók. Þá er hellirinn gríðarlega stór, eða hér um bil 50 metrar á lengd og því sé líklegt að hann hafi verið notaður sem fjós, frekar heldur en hús fyrir minni dýr. Þá eru frásagnir fólks af nautahellinum oft tengdar við svæðið í túninu í Odda. Kristborg bætir því þó við að það sé ekki hægt að staðfesta það nema finna raunveruleg bein af nautgripum sem þarna hafa farið undir. Þá ættu frekari rannsóknir að varpa ljósi á hlutverk og sögu hellsins.