„Dauðinn er yfir og allt um kring í þessu verki sem minnir okkur meðal annars líka á að við tökum ekki dótið með yfir í eilífðina. Og dótið hjálpar ekki unga manninum að leysa sín persónulegu vandamál.“ María Kristjánsdóttir rýnir í Griðastað eftir Matthías Tryggva Haraldsson.
María Kristjánsdóttir skrifar:
Matthías Tryggvi Haraldsson útskrifaðist frá sviðshöfundabraut Listaháskola Íslands í vor. Lokaverkefni hans var eintalið „Griðastaður“ sem hann sjálfur leikstýrði. Það er nú sýnt í Tjarnarbíói á vegum leikfélagsins „Allir deyja, mamma. Allir deyja.“ Verkið er þar kynnt á þennan hátt: Griðastaður er einleikur um dauðleikann, fjöldaframleiðslu húsgagna, Billy-hillur, bældar tilfinningar, mömmur, sænskar grænmetisbollur, fyrrverandi kærustur, krúttlegar skjaldbökur, einsemd, sniðugar kryddhillur, dauðann, Nockeby-sófa, lífið, sorgina og fleira.
Þetta er nokkuð fjölbreytt og viðamikil innihaldslýsing einleiks og kannski hefði mátt þjappa henni saman í eitt orð : neyslusamfélagið. En ég sem hef ekki lesið verkið aðeins séð það og heyrt, einu sinni, má kannski fullyrða að þemað sé aðlögun karlkyns einstaklings að neyslusamfélaginu, hinn algjöri samruni hans við alþjóðlega húsgagnafyrirtækið IKEA.
Það fjallar þó ekki um þá staðreynd að við íbúar einkavæddra vestrænna samfélaga erum prógrammeruð þannig að við álítum það skyldu okkar að neyta, velja og neyta. Frelsi okkar sé falið í því að geta valið og keypt okkur gleði og hamingju á mörkuðum. Miklu fremur fjallar það um einsemd íbúa neyslusamfélaga. Þessa einsemd sem Zygmund Bauman hélt fram að einkenndi íbúa þeirra öfugt við íbúa framleiðslusamfélaga: neytandinn væri þar ætíð aleinn í leit sinni að nýjum upplifunum, nýjum freistingum sem fullnægt gætu þörfum sem hann vissi ekki einu sinni að hann hefði.
Og einmana er hann ungi karlmaðurinn Lárus sem Jörundur Ragnarsson leikur í ramma úr hvítum Billyhillum sem skáskera sviðið og eru næstum því eins margar eins og mínar, sem eru fjölmargar. Þar er líka IKEA sófi og háir speglar sem eiga kannski að minna á þá sjálfsmynd sem byggð er upp með því að sánka í kringum sig dóti og stundaglös sem minna á dauðleikann. Dauðinn er yfir og allt um kring í þessu verki sem minnir okkur meðal annars líka á að við tökum ekki dótið með yfir í eilífðina. Og dótið hjálpar ekki unga manninum að leysa sín persónulegu vandamál. Það mun á endanum gera út af við hann , það vitum við, reyndar allan heiminn. Enda er Lárus þrúgaður af sektarkennd og búinn að gera vandamál sem hann aðeins getur leyst með öðrum að einkamáli sínu; friðar samviskuna eins og við mörg með svansmerktum vörum og flokkun rusls. Einkavæðing hins opinbera og einstaklingsvæðing hins sameiginlega, talaði hinn vísi Bauman ekki líka um það?
Ekkert af þessu er sagt beint út í verkinu, þar er bara ungur maður að leita sér að öryggi, griðastað og finnur hann Í IKEA. Og aðdáunarvert hvað Matthías Tryggvi getur fengið áhorfenda til að tengja hið smáa, einkanlega, sem hann veltir upp, við stærri samhengi og hvað hann og Jörundur fá áhorfanda til að samsama sig með grátbroslegri tilveru mannsins Lárusar, hlæja að honum og um leið sjálfum sér.
Það er ákveðin óreiða í verkinu, mikið sem Matthías Tryggvi þarf að koma að, og í fyrstu fannst mér þetta nokkur ókostur. En sú óreiða endurspeglar vissulega veruleika okkar flestra. Sömuleiðis fannst mér í fyrstu það koma nokkuð niður á Jörundi að höfundurinn alls óreyndur skyldi taka sjálfur yfir leikstjórnina sem hann hefur þó áreiðanlega lært heilmikið af. Ef til vill hefðu reyndari leikstjórar mjólkað meiri húmor út úr verkinu, gert suma hluti markvissari hjá Jörundi. En hefði það verið til bóta? Nei, fagurfræðileg smásmygli á ekki heima hér. Eftir stendur að við förum út úr leikhúsinu með myndina af einmana grátbroslega einstaklingnum Lárusi prentaða í brjóstið. Við finnum til með honum, finnum til með sjálfum okkur og langar helst af öllu að taka höndum saman með öðrum, strax á morgun, til þess að breyta þessu, bylta þessu fáránlega hagkerfi dauðans. Leikarinn og leikskáldið mega vera stoltir af því, finnst mér.