Xi Jinping getur verið forseti til lífstíðar í Kína, ef og þegar Alþýðuþingið samþykkir stjórnarskrárbreytingu á sunnudag sem afnemur tveggja fimm ára kjörtímabila hámark á valdasetu forsetans. Xi Jinping er kallaður Mao 21. aldarinnar. Mao er talinn eiga fleiri mannslíf á samviskunni en Hitler, Stalin og Pol Pot til samans eða 70 milljónir manna.

Kína er frábært og Xi forseti er líka frábær. Hann er núna orðinn forseti til lífstíðar. Þetta sagði Donald Trump á fjáröflunarkvöldverði á Mar-a-Lago sveitasetrinu á Flórída við mikinn fögnuð viðstaddra. Trump sagði þetta í gamansömum tón en það er einmitt það sem á að gera á Alþýðuþinginu sem hófst á mánudag. Um helgina verður væntanlega tekin til afgeiðslu tillaga sem afnemur stjórnarskrárbundnar hömlur á því hve lengi forsetinn getur setið. Núgildandi reglur hljóða upp á tvö fimm ára tímabil að hámarki sem að óbreyttu þýddi að Xi Jinping gæti lengst setið til ársins 2023. Nú verða engar slíkar hömlur og því getur Xi Jinping verið forseti til dauðadags. Hann er frábær, segir Trump. Honum tókst það. Mér finnst það frábært og kannski ætti ég að gera slíkt hið sama.

Afnám takmarkana á valdatíð forsetans er gríðarleg breyting og leiðir til þess að Xi Jinping verður í raun alvaldur í Kína til frambúðar. Lýðræðissinnar hafa fordæmt breytinguna og hún mætir mikilli andstöðu. Sú andstaða hljómar hins vegar ekki á 3000 manna Alþýðuþingi Kína sem hófst á mánudag og þar liggur ákvörðunarvaldið. Enginn fulltrúi hefur nefnt minnstu andstöðu við tillöguna og allir keppast við að lofsyngja Xi Jinping. Þeir einu sem tjá sig tala um þessa stjórnarskrárbreytingu sem mikið framfararskref. Forsætisráðherrann Li Keqiang sagði í opnunarræðu sinni að það verði allir að standa þétt við bakið á leiðtoganum og tryggja algjöran einhug innan flokksins. Hann talaði um ótrúlegan og einstakan árangur í hernaðaruppbyggingu og efnahag þjóðarinnar undir stjórn Xi Jinping. Þingið stendur í tvær vikur og er talið að tillagan verði afgreidd mótstöðulaust á sunnudag. Söguleg og róttæk breyting segja sérfræðingar.

Roderick MacFarquhar sérfræðingur í málefnum Kína við Harvard háskóla segir í Guardian að Xi Jinping sé nú 64 ára og gæti því vel stjórnað næstu 20 árin og jafnvel stýrt þjóðinni og flokknum á aldarafmæli byltingarinnar árið 2049. Hann segir að skilaboðin með þessari stjórnarskrárbreytingu sé skýr. Xi Jinping ætli að stjórna til frambúðar. Qiao Mu, prófessor í blaðamennsku sem fór í útlegð vegna Xi segir að einræðisherrar séu alltaf hrokafullir. Breytingin sé hræðileg fyrir stjórnmálamenningu og lýðræði í landinu.

Jedd Babbin segir í Washington Times að Xi Jinping ætli sér augljóslega að verða jafn áhrifamikill og Mao var á sínum tíma. Í haust var heimspeki hans tekin inn sem einn af grunnþáttum Kommúnistaflokksins sem setur hann á sama stall og Mao, stofnanda Alþýðulýðveldisins Kína. Babbin bendir reyndar á að Mao beri ábyrgð á dauða 70 milljón manns eða meira en Hitler, Stalín og Pol Pot til samans. Eftir fráfall Mao var verulega dregið úr persónudýrkun og tryggt að enginn gæti setið lengur en tvö kjörtímabil. Undir stjórn Deng Xiaoping var stefnan hófsöm en hernaðarmáttur og efnahagur landsins styrktist verulega en átakalaust. Ólíkt forverum sínum hefur Xi Jinping verið óhræddur við að sýna mátt sinn og megin Kínaveldis á öllum sviðum.

Persónudýrkun hefur aukist verulega í valdatíð Xi Jinping. Áróðursvélin sýnir hann sem hinn milda landsföður sem á sama tíma er fastur fyrir. Ættfaðirinn mikli sem sýnir þegnum sýnum ást og hlýju en getur tekið grimmt á andstæðingum sínum innan lands sem utan. Maðurinn sem berst gegn fátækt og spillingu innan lands en byggir upp virðingu og orðsír landsins út á við sem vaxandi risaveldi. Önnur eins persónudýrkun hefur ekki sést síðan á dögum Mao. Furðulítið er vitað um þennan mikla leiðtoga sem stýrt hefur landinu frá 2013, meðal annars sem forseti landsins, formaður Kommúnistaflokksins og æðsti yfirmaður herráðsins. Xi Jinping hefur barist hatrammlega gegn spillingu í landinu og meðal fórnarlamba hans eru tuttugu meðlimir miðstjórnar flokksins og 100 hershöfðingjar og aðrir yfirmenn í hernum. Baráttan gegn spillingu hefur því tvíþættan árangur í för með sér. Annars vegar er mögulegum keppinautum vikið úr vegi. Hins vegar er vinsælum skilaboðum komið til almennings um að spilling verði ekki liðin en almenningur er langþreyttur á augljósri spillingu og sýnilegum auðæfum elítunnar.

Faðir Xi Jinping var herforingi í stríðinu gegn Japan og síðar í borgarastríðinu sem kom kommúnistum til valda, háttsettur embættismaður og ráðherra. Hann féll í ónáð í menningarbyltingunni og settur í fangelsi. Fjölskyldan var ofsótt og sonurinn þar á meðal. Móðir hans var látinn fordæma hann fyrir framan rauðu varðliða Mao forseta og hann síðan sendur til að þræla í sveitinni í sjö ár. Hann segir þessa refsingu hafa verið guðsgjöf og aukið verulega á þekkingu hans og sjálfstraust. Þarna hafi hann í raun verið bóndi og komist í snertingu við grasrótina. Nú er hann orðinn langvaldamesti maður landsins og það til frambúðar. Eða eins og Donald Trump orðar það: Valdamesti maður Kína í heila öld.