Charlotte Bøving er höfundur og hugmyndasmiður einleiksins Ég dey, þar sem hún skoðar lífið frá sjónarhóli dauðans og dauðann frá sjónarhóli lífsins. „Hugrekki, hæfileika og húmor hefur Charlotte Bøving í ríkum mæli,“ segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi, „og það sannaði hún enn einu sinni á frumsýningu á einleik sínum á Nýja sviði Borgarleikhússins.“


María Kristjánsdóttir skrifar:

Það þarf vænan skammt af hugrekki til að ganga fram á afþreyingarvöll markaðsleikhússins með einleik sem ber nafnið „Ég dey“. En það þarf líka vænan skammt af hæfileikum og húmor til að geta rætt við áhorfendur þetta hálfgerða tabú meðal okkar.

Hugrekki, hæfileika og húmor hefur Charlotte Bøving í ríkum mæli eins og þeir vita sem fylgst hafa með störfum hennar sem leikara og leikstjóra í íslensku leikhúsi. Og það sannaði hún enn einu sinni á frumsýningu á einleik sínum á nýja sviði Borgarleikhússins á fimmtudaginn var en sviðsetningin er eitt af samstarfsverkefnum hússins í vetur.

Charlotte er höfundur að einleiknum og hugmyndasmiður sýningarinnar og með-leikstjóri hennar er Benedikt Erlingsson. Þórunn María Jónsdóttir, hannar einfalt, hreint og þénanlegt svið sem og skemmtilega oft kómiska búninga. Garðar Borgþórs­son lýs­ir sviðið, en Stein­ar Júlí­us­son gerir kostulega fyndin mynd­bönd. Gísli Gald­ur á heiðurinn að tónlistinni sem oft og tíðum verður með spaugilegum hljóðum að mótleikara Charlotte í gegnum svokallað lúppubox og styður annars sýninguna ákaflega vel, nánast af hógværð. Unnur Elísa­bet Gunn­ars­dótt­ur sér um sviðshreyf­ing­ar , dansa, en hæfileikar Charlotte liggja kannski síst á sviði dansins.

Það er nokkuð erfitt að lýsa leiknum án þess að ræna væntanlega áhorfendur gleðinni yfir að láta koma sér á óvart. Hann hefur ekki línulega framvindu en hvert atriði sprettur upp úr öðru, kannski nægir þar aðeins eitt orð, ein setning, dans, vögguvísa til að tengja ólíkar sjálfstæðar einingar. Að sjálfsögðu er það Charlotte sem hefur orðið og öðrum þræði fjallar leikurinn um hana, reynslu hennar sjálfrar af sorg, söknuði, dauða. Dauða náinna vina en líka dauðanum í Bónus, dauðanum í eldhúsinu. Alveg er það laust við tilfinningaklám þeirra reynslusagna sem  við vöðum í upp að hné í sumum íslenskum fjölmiðlum. Stundum óhemju fallegt svo sem þegar hún faðmar vinkonu að skilnaði eða drepfyndið því oftast horfir Charlotte ekki aðeins á tilveruna glettnisaugum heldur kann hún líka að hlæja að sjálfri sér. Hún nýbúinn sem hóf að læra íslensku 34 ára og talar hana í dag skratti vel gerir til dæmis óspart grín að erfiðleikum sínum með beygingar nafnorða þannig að áhorfendum finnst hún eiginlega tala íslensku næstum óaðfinnanlega.

En hún segir okkur ekki aðeins frá sjálfri sér, heldur miðlar hún okkur alls kyns upplýsingum sem hún hefur sánkað að sér eftir að hún horfðist í augu við þá staðreynd að fyrir henni liggi einsog okkur öllum að deyja. Þar er að finna ýmislegt sem tengist dauðanum í okkar nánasta umhverfi og alheiminum öllum. Við erum viðstödd jarðarför og fáum uppástungur um alls konar slíkar sem og um ýmiss form greftrana. Við fáum að vita úr hverju við deyjum helst. En líka auðvitað hverjir lifa lengst. Stórum heimspekilegum hugmyndum um dauðann, um ógn hans eða fegurð, er hvorki velt upp né um lífið eftir dauðann. Enda fjallar leikurinn um lífið fyrir dauðann, þann eina tíma sem við vitum að okkur er gefinn og Charlotte Bøving sýnir okkur með allri sinni smitandi glöðu nærveru að við verðum að þora að nýta, gleðjast yfir og trúa á.