Sýningin Það sem við gerum í einrúmi er virðingarverð tilraun til að fjalla um aðkallandi efni en úrvinnslan nær ekki að gera jafn víðfeðmu og flóknu vandamáli og einmanaleika sannfærandi skil, að mati gagnrýnanda Menningarinnar.
Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:
Verkið Það sem við gerum í einrúmi er innlit í líf fjögurra einstaklinga sem allir á sinn hátt kljást við ólíkar birtingarmyndir einmanaleika, einsemdar og félagslegrar einangrunar. Verkið teflir sömuleiðis saman ólíkum listmiðlum, kvikmynd og sviðslist, og felur því í sér eins konar tilraun með samband og frásagnareiginleika þessa listforma.
Umfjöllunarefni sýningarinnar, eimannaleikinn, birtist okkur í fjórum ólíkum myndum á sviðinu: Valdi er ungur maður sem er að kljást við alvarlega blöndu af félagsfælni, frestunaráráttu og kvíða, Drífa (móðir Valda) er komin á eftirlaun og einangrast félagslega í kjölfarið, Halldór tekst á við ofsóknir og útskúfun í kjölfar ásakanna um barnagirnd og Ragga er útilokuð félagslega vegna heyrnarleysis. Allt eru þetta stór og alvarleg vandamál; þau eru ólík innbyrðis, marglaga og flókin.
Umræða um einmanaleika og félagslega einangrun hefur verið áberandi í samfélaginu undanfarið enda ærin ástæða til að varpa ljósi á aðstæður fólks sem tekst á við þau vandamál sem spretta úr þessu jarðvegi. Nóg er að nefna aukna tíðni einsemdar, kvíða og þunglyndis ungs fólks vegna notkunar samfélagsmiðla og sömuleiðis aukna félagslega einangrun eldri borgara, sérstaklega eldri karlmanna.
Verkið sprettur upp úr persónulegri upplifun eins höfundar og því ljóst að umfjöllunarefnið stendur aðstandendum þess nærri. Sú leið sem farin er í verkinu er á vissan hátt tilraun til að ná utan um þetta víðfema vandamál. Leitast er við birta okkur heildstæða mynd af aðstæðum persónanna og ólíkum vanda þeirra. Það er hins vegar ekki heiglum hent þegar um eins ólíkar birtingarmyndir einmanaleika og er um að ræða og þá er hætta á að listamenn fari að stytta sér leiðir.
Klisjur og staðalímyndir
Í tilfelli sýningarinnar Það sem við gerum í einrúmi eru áhorfendum birtar einfaldaðar útgáfur þeirra vandamála sem persónurnar kljást við, án efa í von um að komast að kjarna þeirra. Hins vegar má spyrja sig hvað slík einföldun getur haft í för með sér. Ein afleiðing hennar eru birtingarmyndir staðalímynda og klisja. Í aðstæðum persónanna birtast okkur þekktar ímyndir vandamálanna, svo sem þegar reikningum er stungið undir sófapúða, hádramatísk klassísk tónlist notuð til að undirstrika eymd, erfið símtöl ítrekað hunsuð, persóna situr ein við enda borðs á vinnustað o.s.frv..
Í samhengi við raunsætt yfirbragð sýningarinnar, sem undirstrikað er m.a. með notkun kvikmyndaformsins, verða vandmál persónanna þannig endurtekning á þekktum stærðum og virka ópersónuleg og fjarlæg, en ekki nálæg og bundin í einstaklingana á sviðinu. Leikarar eltast við þessar þekktu ímyndir vandamálanna og verður persónusköpunin því eintóna og flöt. Þetta form einföldunar birtist áhorfendum endurtekið í sýningunni, m.a. annars í lausn verksins þar sem flókinn vandi persónanna virðist leystur á tiltölulega einfaldan máta. Í því samhengi má spyrja sig hvaða skilaboð slík notkun á staðalímyndum færir áhorfendum en það er líklegra en ekki að sumir þeirra eigi við samskonar vandamál að etja.
Samspil sviðslistar og kvikmyndar
Samspil kvikmynda- og sviðslistar er veigamikill þáttur í sviðsetningunni. Sagan flakkar fram og til baka af sviði og upp á skjá og þannig opnast heimur sýningarinnar handan sviðsins inn í hverdagslegan raunverleikan. Leitast er við að varpa fram raunsærri mynd af lífi persónanna eftir að þær yfirgefa blokkina sem þær búa allar í og ýtt er undir það í leikstíl og hversdagslegum aðstæðum. Það er hins vegar áhugavert að velta fyrir sér ólíkum eiginleikum þessa tveggja listmiðla og ástæðum þess hvers vegna þeim er tefld saman í sýningunni. Vissulega stækkar heimurinn út fyrir veggi leikhússins, birtir okkur sameiginlegan hversdag okkar, en hefur þessi samruni áhrif á frásagnareiginleika sýningarinnar?
Á vissan hátt byggir kvikmyndalistin á fjarlægð og einangrar áhorfandann um leið og hún bindur hann við eitt sjónarhorn. Sviðslistir eru aftur á móti nálægar, þ.e. áhorfendur og leikarar deila bæði raunverulegum tíma og rými, og sjónarhorn áhorfanda er marglaga. Möguleikar þessa tveggja listforma til frásagnar eru því í eðli sínu ólíkir. Þannig má gera ráð fyrir því þegar tveimur jafnólíkum listmiðlum er tefld saman að eitt markmiðið sé að vinna með sértæka eiginleika beggja miðla til þess að ýta undir frásögnina, viðtöku áhorfenda eða sögn verksins.
Í tilfelli sýningarinnar Það sem við gerum í einrúmi fer ekki mikið fyrir vinnu með þessa eiginleika miðlana. Kvikmyndaformið ræður för og sviðsheimurinn eltir. Þetta sést til að mynda í því hvernig leitast er við að birta okkur raunsæja mynd af aðstæðum fólks á sviðinu sem kallast á við realismann í kvikmyndinni, t.d. í tiltölulega raunsæjum leik á sviði, texta, leikmynd og búningum, sem kallast á við þann raunveruleika sem birtist áhorfendum á tjaldinu. Þó svo að áhorfendum séu birt ólík sjónarhorn á saman tíma á sviðinu er skýrt afmarkað milli íbúða eða persóna með ljósum eða hljóðum og sjónarhorni áhorfenda stýrt að töluverðu leyti, ekki ólíkt og í kvikmyndinni. Heimur kvikmyndar og sviðs er að sama skapi aðskilin, þ.e. frásögnin á sér ekki stað á sama tíma heldur hverfur kvikmynd þegar sagan berst inn á svið og öfugt. Þannig virka miðlarnir sem framlenging á hvor öðrum en ekki sérstök eining með sérstæka frásagnareiginleika.
Notkun þessara miðla felst því fyrst og fremst í að sýna áhorfendum heiminn handan íbúðanna en um leið til undirstrikunar, þ.e. kvikmyndin sýnir okkur aðra hlið á vandmálum persónanna, en veitir áhorfendum ekki dýpri skilning á flóknum aðstæðum þeirra. Því má velta því fyrir sér hvaða áhrif miðlarnir í sýningunni hafa á hvorn annan en óljóst er hvað fæst með því að bæta sviðslistum við kvikmyndina og kvikmynd við sviðlistina. Í samhengi við þær staðalímyndir sem birtast okkur í sögunni og leik þá virkar notkun þessara tveggja miðla eins og undirstrikun eða staðfesting á þeim staðalímyndum í stað þess að varpa ljósi á hversu fjölþættur og flókinn vandamál persónanna eru.
Sýningin Það sem við gerum í einrúmi er virðingarverð tilraun til að draga aðkallandi umfjöllunarefni fram í dagsljósið. Ljóst er að einmanaleiki, kvíði og þunglyndi er eitt stærsta heilsufarsvandamál hins vestræna heims. Vandamál persónanna á sviðinu er þó full víðfem til að hægt sé að ná utan um þau svo vel sé og detta aðstandendur sýningarinnar því í að notast við einföldun og staðalímyndir. Samspil kvikmyndar og sviðslistar er að sama skapi áhugaverð tilraun til að stækka heim sýningar en betur hefði þurft að skoða þá frásagnarmöguleika sem felast í hvorum miðli fyrir sig og þannig hvernig hægt væri að nota þá til að dýpka söguna og komast handar klisjunnar.