„Bygging bókarinnar er óreiðukennd í fyrstu, en þegar lengra dregur áttar maður sig á því að höfundur heldur fast og vel um alla þræði, beitir tímaflakki og endurtekningum listavel, nánast eins og í módernísku ljóði.“ Gauti Kristmannsson, bókmenntarýnir Víðsjár, fjallar um Drottninguna á Júpíter - Absúrdleikhús Lilla Löve eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur.
Gauti Kristmannsson skrifar:
„Allar konur verða eins og mæður þeirra. Það er þeirra harmleikur. Enginn karl. Það er hans harmleikur.“ Ekki er laust við að manni flygju þessi orð Algernons úr The Importance of Being Earnest eftir Oscar Wilde við lestur þessarar bókar, þótt samanburðinum verði að ljúka þar, og þó, því þótt Drottningin á Júpíter sé harmleikur ungrar konu en ekki létt íronískur gamanleikur, eins og verk góðskáldsins írska, þá má kannski segja að þau mætist í kaldhæðninni, hvort frá sinni áttinni, hún frá þeirri harmrænu og hann frá þeirri kómísku.
Drottningin á Júpíter er í senn einföld bók og flókin, sem er kostur, því það sem er einfalt gerir lesandanum kleift að halda utan um flækjurnar. Kvikindislegur gagnrýnandi gæti vissulega gripið orð sögunnar undir lokin á lofti: „Auðvitað hefði ég getað sagt það. Ég elskaði mömmu og ég elskaði hrafna. Ég vildi alltaf vera þar sem þeir voru. Svo varð ég bara fyllibytta.“ En hún sagði það bara ekki svona, söguhetjan sem við fylgjumst með á barnsaldri þegar hún er vitni að langri banalegu geðveikrar móður, skrópandi í skólanum að mestu leyti. Annar þráður og raunar sjónarhorn sögukonunnar er frásögn ungskálds og konu í krísu, konu sem saknar móður sinnar og við lesendur vitum ekki alveg hvert veruleikaskyn hennar er, hvað eru órar og hvað lýsingar manneskju sem er sídrukkin og óstöðug á geði. En það er spennandi að dveljast á þessum óljósu mörkum, við missum aldrei þræðina í þessari vandlega skrifuðu óreiðu.
Stærsta þemað í þessari sögu um vonleysi ástarinnar í víðum skilningi, ástar foreldris og barns, ástar karls og konu, og konu og konu, er samt grimm móðurást, sjálflæg og frek til barnsins, svo frek að hún sviptir það eigin sjálfsmynd, eða þannig les ég örvæntingu ungu konunnar, sem klæðir hana í hina gömlu þrá að hafna þessu slétta og fellda, borgaralega líferni, hugmynd sem við getum að minnsta kosti rakið aftur til bóhema síðla á nítjándu öld, sem Oscar Wilde var jú fulltrúi fyrir á sinn kaldhæðna hátt. En harmurinn hér er djúpur og lýsir sér í flótta, frá veruleika, draumum og sýnum inn í tilraunir til borgaralegs lífs með manni sem reyndar virðist vanta sjálfan það óræða í lífið sem hann sá fyrst í móðurinni og síðar í dótturinni. Sú tilraun var dæmd til að mistakast frá upphafi, ef marka má sögukonuna og hún leitar ýmist til fortíðar í sæluríki æskunnar hjá ömmu sinni og afa, afa sem hefur að einhverju leyti föðurhlutverk, ef hin freudíska sýn er ekki of klisjukennd fyrir okkar tíma. Raunar mætti setja sambýlismanninn, Benedikt lækni, inn í það hlutverk líka, en þá er það áreiðanlega orðið að klisju af lesandans hálfu, þar væri ekki við höfundinn að sakast. En hver sem skýringin er geta afleiðingar flóttans verið enn frekari flótti uns yfir lýkur. Nú eða eins og ein persónan, ein vonin, bendir á „að þegar Hekla gaus í síðasta sinn lifðu allir refirnir að Fjallabaki. Það fannst ekki einn dauður refur í friðlandinu þótt þeir hefðu grafist undir öskunni. Það er af því að þeir skríða ofan í holu, þeir búa sér til fylgsni en flýja ekki þegar hætta steðjar að. Það eru þeir sem alltaf eru á flótta sem koma verst út úr hörmungum.“
Við lesendur erum oft uppteknir af því að túlka bókmenntir út frá okkar lesreynslu; mér datt til að mynda í hug ólík verk á borð við Bjargvættinn í grasinu eftir Salinger og Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, nú eða Flækingur Kristínar Ómarsdóttur, en það er bara lesandans skemmtun og ágæt út af fyrir sig, en segir kannski minna um verkið fyrir næsta lesanda. Meira um vert að skoða hvernig verkið vinnur með lesandanum þrátt fyrir öll hugrenningartengsl sem myndast geta.
Bygging bókarinnar er óreiðukennd í fyrstu, en þegar lengra dregur áttar maður sig á því að höfundur heldur fast og vel um alla þræði, beitir tímaflakki og endurtekningum listavel, nánast eins og í módernísku ljóði. Þó er þetta mjög póstmódern saga, svo ég leyfi mér að nota merkimiða, á það benda óvissan í frásögninni, sjálfskoðunin eða metatextinn sem gægist fram þegar sögukonan ræðir söguna sem sögu, eins og vitnað var til hér að ofan, eða snemma í sögunni, þegar hún segir blátt áfram þegar hún kynnir eina mikilvægustu sögupersónuna, uppstoppaðan hrafn sem hún kallar stundum Krumma, og stundum Starkað Krumma, en hún á í miklum einræðum við hann gegnum söguna. Hann er tákn frelsisins, og um leið fjötranna sem hún býr við inni í sér: „Krummi stendur þögull og sperrtur og fylgist með gestunum með hrafnsvörtum augum, á kránni þar sem þessi saga gerist að miklu leyti.“
Sögusviðin eru allmörg og við flökkum á milli þeirra eins og í tíma og það tekst jafn vel að halda utan um það og annað í þessari frásögn sem er samtímis örlítið fráhrindandi og um leið aðlaðandi. Athyglisverð spenna þar. Hin söguhetjan, ef svo má kalla, Lilli Löve, hann fær meira að segja nafn í titli bókarinnar, og sirkúsinn hans, voru í mínum huga dálítið yfirdrifnir og einfaldaðir í fyrstu, það vantaði um stund þetta sem Coleridge kallaði „suspension of disbelief“, afnám vantrúar ef svo má segja, Lilli var bæði hetjan í grunnskólanum sem bjargaði sögukonunni frá einelti og sá sem bjargar henni úr sollinum á barnum Bravó um tíma, eins og prinsinn á hvíta hestinum. En kannski er hann bara saga sem hún segir barþjóninum, saga um sirkus sem fer út á land með fíla og ljón, loftfimleikamenn og trúða og sýningar sem brjóta allar reglur sirkusa yfirleitt, trúðarnir hræða og atriðin virðast vera fremur til að skelfa. Og svo taka fígúrurnar yfir og sirkusinn hverfur í bakgrunninn og það er talsverð íronía fólgin í því að Lilli Löve, hetja og prins, gerir það líka og er bara eins hver annar harðstjóri þegar öllu er á botninn hvolft, þannig las ég það að minnsta kosti. Sögukonan kynnist hins vegar nýrri hlið á vonlausri ást sem kannski var alltaf dæmd til að deyja vegna hinnar grimmu ástar móðurinnar sem virðist hafa heltekið sögukonuna út yfir gröf og dauða.
Móðurþemað í bókinni er sterkt og mér finnst eins og það þema sé víðar til athugunar þessi árin, í ljóðum og öðrum skáldskap og er það vel auðvitað. Í þessu verki er veik og veiklynd móðir í stóru hlutverki og hefur það miklar afleiðingar fyrir söguhetjuna, sem klæðist fötum hennar og veit raunar ekki hvort hún er hún sjálf eða tilraun til að verða móðir sín. Þetta eru kannski meginátök sögunnar og áhugaverð fyrir þá sök að við höfum ekki séð mikið af slíkum sögum, en við þurfum á þeim að halda, held ég. Því að áhrif mæðra okkar allra ná alltaf langt út fyrir gröf og dauða, alveg sama hversu góðar eða slæmar þær eru eða voru. Við getum unað því, flúið, eða grafið okkur niður í holu í von um að bjarga okkur. Eða ekki.