Okkur finnst einboðið að leggja fram vantraustsályktun á dómsmálaráðherra núna sagði, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í Kastljósi í kvöld. Hún telur málið um aðkomu ráðherra að skipun Landsréttardómara fullrannsakað og ekki ástæðu til að bíða. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, andmælti því að málið væri notað til að bera fram vantraust á ráðherra. Hann myndi frekar bíða færis, ef hann væri í stjórnarandstöðu, eftir að ráðherrar gerðu stærri mistök.
Páll og Þórhildur Sunna ræddu Landsréttarmálið og stöðu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Kastljósi í kvöld. Þórhildur sagði að það lægi ljóst fyrir að stjórnarandstaðan myndi bera fram vantraust á dómsmálaráðherra. Spurningin væri aðeins hverjir stæðu að tillögunni og hvenær hún kæmi fram.
Allar upplýsingar til reiðu
Þórhildur Sunna sagði að nú væri ekkert til fyrirstöðu að bera fram vantraust, þegar umboðsmaður Alþingis teldi að öll efnisatriði hefðu verið dregin fram. „Það er ekkert sem eftir stendur til að rannsaka málið. Það er fullupplýst og þess vegna finnst okkur einboðið að leggja fram vantraust á dómsmálaráðherra núna,“ sagði Þórhildur Sunna. „Nú er umboðsmaður búinn að klára sinn þátt málsins og núna liggur, fyrir okkar höndum, allar þær upplýsingar fyrir svo við getum tekið afstöðu til þess hvort ráðherra sé treystandi fyrir þessum málaflokki, í ljósi dóma Hæstaréttar og í ljósi þeirrar rannsóknar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur þegar framkvæmt í þessu máli.“
Ekki nógu stór mistök til að kalla á vantraust
„Þú breytir náttúrulega engu um ferlið þó þú settir ráðherrann til hliðar,“ sagði Páll Magnússon. „Því ákvarðanir sem búið er að taka hafa verið teknar og á þær verður þá reynt fyrir dómstólum eða mannréttindadómstólnum, hvar sem verkast vill, hvort sem ráðherrann sæti eða víki.“
Páll taldi málið ekki þess legt að það verðskuldaði vantraust á ráðherra. „Ef menn vilja flytja vantrauststillögu af þessari ástæðu á ráðherra þá verða menn bara að gera það upp við sig. Sjálfur myndi ég, í stjórnarandstöðu, bíða eftir öðru tækifæri til að vantreysta ráðherra því ég er alveg viss um það að næstum því allir þeirra eiga eftir að gera meiri mistök en þessi á því kjörtímabili sem er að byrja.“
Hunsaði ítrekuð tilmæli
Þórhildur Sunna sagði að sér þættu þetta stór orð því ráðherra hefði brotið af ásetningi gegn rannsóknarreglu. „Hún fékk ítrekuð tilmæli frá ráðgjöfum og sérfræðingum innan ráðuneytisins um að með sínu verklagi, með þessu verklagi sem hún var að framfylgja, með því að bera ekki saman umsækjendur, eins og hún gerði ekki eins og henni var ráðlagt að gera, að þá væri hún að brjóta gegn þessari rannsóknarreglu.“
Þessu andmælti Páll. „Þetta er nú form málsins. Ég er í stjórnmálum. Ég er ekki hér í einhverjum lagaþrætum. Ég einblíni miklu frekar í þessu máli á efni og innihald frekar en formið. Það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir hvað til dæmis Píratar og Sunna eru upptekin af formstagli allskonar frekar en að ræða frekar um efnið og innihaldið,“ sagði Páll. Þórhildur Sunna svaraði því til að efnislega væri mikil óvissa í dómskerfinu vegna þess að ráðherra hefði brotið lög við skipun dómara í Landsrétt.
Mátti ráðherrann skipa dómara?
„Efnislega innihaldið í þessu máli er það: Mátti ráðherrann skipa þessa dómara?“ spurði Páll og svaraði sjálfum sér: „Já.“ Þessu andmælti Þórhildur Sunna. „Ekki eins og hún gerði það, nei.“