Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára í úrvalsdeild kvenna í körfubolta, Snæfell, æfa í sitthvoru lagi á virkum dögum. Fimm leikmenn meistaraflokksins æfa í Reykjavík á meðan aðrir leikmenn æfa í Stykkishólmi, þar sem Snæfell spilar heimaleiki sína.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sem hefur stýrt liðinu til fyrstu Íslandsmeistaratitlana í sögu kvennaliðs félagsins, býr í Stykkishólmi en landsliðskonan Berglind Gunnarsdóttir er ein af þeim sem búa í höfuðborginni. 

Látum þetta bara ganga upp

„Við erum fimm sem æfum í Reykjavík. Við höfum við með skipt lið síðustu tvö ár og það hefur skilað Íslandsmeistaratitlum. Ég er ekki að segja að þetta sé ákjósanlegasta leiðin en þetta er eina leiðin til að vera með lið í Stykkishólmi. Við látum þetta bara ganga upp og það eru allir með í því,“ segir Berglind sem er í skóla í Reykjavík. Hún viðurkennir að það reyni á sjálfsagann að æfa án þess að vera með aðalþjálfara liðsins viðstaddan. 

„Það tekur alveg á. En við náum í lið og erum í toppbaráttunni þannig að þetta er ekkert mál.“

Snæfell hefur aldrei orðið bikarmeistari í kvennaflokki í körfubolta en liðið dróst gegn Keflavík þegar dregið var í undanúrslit keppninnar í Laugardal í dag. RÚV ræddi nánar við Berglindi um bikardrauminn og tvískiptan æfingahóp Snæfells en viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.