Einar Kárason, rithöfundur, segir tillögur menntamálaráðherra um endurgreiðslu hluta af kostnaði bókaútgáfu aðeins greiða götu útgefanda. Rithöfundar beri skarðan hlut frá borði. Einar fór yfir hugmyndir menntamálaráðherra í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, mun á nýju þingi leggja fram frumvarp um beinan stuðning við bókaútgefendur. Lagt er til að þeir fái 25% af kostnaði við útgáfu bóka á íslensku endurgreiddan. Áform um afnám virðisaukaskatts á bækur, sem lofað var í sáttmála ríkisstjórnarinnar í lok síðasta árs, hafa verið lögð á hilluna. Einar segir tillöguna aðeins gagnast útgefendum. Virðisaukaskattur á bækur eigi ekki heima á íslenskum markaði.
„Það er í rauninni algjörlega galið að í litlu málsamfélagi eins og okkar, þar sem markaðurinn er jafn lítill og viðkvæmur, að það skuli vera svona íþyngjandi skattur lagður á þessa grein og við verðum að athuga það að það að það skuli þrífast sjálfstæð bókaútgáfa í 300 þúsund manna samfélagi er talið kraftaverk hvar sem er í heiminum.“
Hann segir afnám skatta á bækur hafa verið sameiginlegt baráttumál útgefanda og höfunda í hátt í sextíu ár.
„Við höfum staðið saman í þessu útgefendur og höfundar, í þessari baráttu í fimmtíu, sextíu ár, það er langt síðan ég var formaður og við höfum unnið mjög náið með þeim alla tíð í baráttunni fyrir afnámi þessa skatts og fleiri og fleiri hafa komist á okkar skoðun. Það gera til dæmis helstu menningarþjóðir í okkar heimshluta. En nú gerist það að það er ákveðið að hætta við þetta, að því að manni sýnist í eitt skipti fyrir öll.“
Rithöfundar sitji eftir með sárt ennið eftir svikin loforð um afnám virðisaukaskattsins.
„Það var náttúrulega feikilega mikið gleðiefni og fagnaðarefni þegar ný ríkisstjórn og Lilja menntamálaráðherra boða það að eigi að leggja þennan skatt niður. Núna fáum við allt í einu tilkynningu um það að það verði ekki heldur eigi að fara að lauma einhvern veginn ofan í rassvasann á útgefendum einhverjum styrkjum í staðinn, en höfundarnir sitja eftir með sinn skarða hlut. “
Hann segir tillögur menntamálaráðherra vera ein verstu ótíðindi sem höfundar hafi heyrt. Honum þykir ólíklegt að rithöfundar njóti góðs af auknum styrkjum til útgefanda og útilokar ekki að höfundar þurfi að ráðast í einhvers konar baráttu fyrir betri kjörum.
„Þetta er svona brauðmolakenning sem hefur heyrst. Ef að þeir fái meiri peninga þá muni hugsanlega eitthvað hrjóta af borðum þeirra til okkar og jú það getur vel verið að þetta þýði það að rithöfundasambandið þurfi að fara að krefjast þess að samningar verði teknir upp og þá þegar þeir renna út næst, og fara í einhvers konar baráttu. Þetta er ekkert auðvelt og mun örugglega taka mörg ár og ekkert er víst hvað kemur út úr því. Hins vegar að fella niður skattinn væri stórkostleg kjarabót, “ segir Einar.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Einar í spilaranum hér að ofan.