Vetrargulrætur eru fimm smásögur í lengri kantinum eftir Rögnu Sigurðardóttur sem gerast á ólíkum tímabilum en tengjast í gegnum fókus á listsköpun og stöðu kvenna. Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að þó bókin láti ekki mikið yfir sér sé hún með stærri tíðindum í bókaflóði þessa árs.
„Þær eru mjög samtengdar án þess að tengjast í gegnum persónur eða þemu,“ segir Þorgeir Tryggvason. „Þeim er raðað í tímaröð, sú fyrsta gerist í nútímanum og sú síðasta á 18. öld. Allar nema sú síðasta eru um hlutskipti myndlistarmanna. Allar hafa þær rosalega sterkan kjarna sem hægt er að orða í einni setningu; „blindur niðursetningur smakkar peru í fyrsta sinn.“ Jafnframt er rosalega næm sálfræðileg nálgun á innihaldið, þrátt fyrir að stíllinn sé alveg eins látlaus og hann mögulega getur verið.“
Guðrún Baldvinsdóttir tekur undir með Þorgeiri. „Það er ótrúleg næmni í textanum. Hvernig hún fjallar um listina, hvernig hún tengir sögurnar saman í gengum listina, það er mikið lýst litum og áferð.“ Þorgeir bætir við að sumar sögurnar lesist hreinlega eins og spennusögur. „Það eru svona djúp viðfangsefni sem liggja undir niðri alls ekki á yfirborðinu,“ segir Guðrún. „Það er staða kvenna í fyrstu fjórum og niðursetningurinn í síðustu sögunni. Þetta er svona bók sem mig langaði strax að byrja aftur á, mig myndi langa til að lesa hana í leshring, þetta er ekta þannig bók, svo mikið hægt að ræða.“