Forsætisráðherra segir að ekki megi hræðast erlenda fjárfesta sem vilji fara í uppbyggingu hér á landi. Regluverk sé nægjanlega traust til að taka á móti þeim. Engin hætta sé á ferðum.
Forsætisráðherra segir að vinna eigi með útlendingum sem vilji fara í fjárfestingar hér á landi eins og hægt sé til að auka hagvöxt. Hér á landi sé traust regluverk svo ekki sé ástæða til að óttast fjárfestingar útlendinga.
Töluvert hefur verið rætt um hugsanlegar fjárfestingar kínverska fjárfestisins, Huang Nubo, á Grímsstöðum á Fjöllum. Huang, sem hefur meðal annars gegnt embættum innan kommúnistaflokksins í Kína, segist tilbúinn til að greiða einn milljarð íslenskra króna fyrir jörðina en hann hyggst reisa þar lúxushótel. Huang þarf að fá samþykki íslenskra stjórnvalda fyrir kaupunum en samkvæmt lögum mega þeir sem eiga heima utan evrópska efnahagssvæðisins ekki eiga jarðir hér á landi nema með undanþágu. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist fagna áformum kínverska fjárfestisins.
„Það er þetta sem við þurfum á að halda. Við þurfum að auka hér hagvöxt. Við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda," sagði Jóhanna í viðtali við fréttastofu RÚV í dag.
Jóhanna segir að í landinu sé nægjanlega traust regluverk til að koma í veg að fjárfesting útlendra fjárfesta hér á landi valdi vandkvæðum. Efasemdir um Huang og áform hans séu tilefnislausar.
Jóhanna segir að við eigum ekki að vera hrædd við útlendinga. við eigum einmitt að reyna að vinna með þeim eins og hægt er til að auka hér hagvöxtin.