Almennt er góð þátttaka í bólusetningu á Íslandi. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Það eru nokkur aldursskeið sem við höfum áhyggjur af, 12 mánaða, 18 mánaða og fjögurra ára þar sem að þátttaka fer niður undir 90%. Við viljum gjarnan ná henni upp en það er ekki neitt slæmt ástand í gangi hvað varðar þátttökuna,“ sagði Þórólfur Guðnason sem var gestur í Kastljósi kvöldsins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á bólusetningum barna þegar hún lagði til að þær yrðu gerðar að skilyrði fyrir að börn fengju leikskólapláss í Reykjavík. Þórólfur segir að gott sé ef þátttaka í bólusetningu gegn mislingum nái um 95%.
„Ef þátttakan dettur niður of mikið þá er hópur af börnum sem er óbólusettur og þá geta komið upp svona litlir faraldrar. Þátttakan er ekki það lítil, að við séum að fá faraldra. Vissulega hafa menn alls staðar áhyggjur af þessu vegna þess að mislingar eru mjög smitandi. Þess vegna þarf þátttakan að vera svona góð.“
Mislingafaraldrar hafa skotið upp kolli í Evrópu að undanförnu. Þórólfur segir að mislingar geti verið mjög hættulegur sjúkdómur en að flestir sleppi vel frá honum. Hann telur að það sé ekki rétt leið að beita þvingunarúrræðum til að auka þátttöku í bólusetningu. „Við erum ekki að fást við foreldra sem eru á móti bólusetningum, þetta er kerfislægt vandamál, skráningar vandamál og hlutir sem við þurfum að laga en ekki að fara í slagsmál við foreldra finnst mér,“ segir Þórólfur.
Hann segir að eðlilegra sé að huga fyrst að því hvað má bæta í heilbrigðiskerfinu. „Ég held fyrst að við eigum að laga okkar ástand áður en við förum að beita foreldrunum hörðu mér finnst það eðlilegra ef hins vegar þátttakan fer að detta mikið niður og foreldrar vilja ekki mæta þá finnst mér að ætti að taka málið aftur,“ segir Þórólfur.