Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Indigo Partners er tilbúinn að leggja aukið fé inn í rekstur WOW, allt að 90 milljónir dala, með ákveðnum skilyrðum. Eignarhlutur Skúla Mogensen veltur á rekstrarframmistöðu félagsins á næstu árum - en gæti orðið enginn. Enn hefur ekki náðst samkomulag á milli Wow air og Indigo Partners og enn á eftir að ljúka áreiðanleikakönnun á rekstri flugfélagsins.

Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að fjárfestingarsjóðurinn sé tilbúinn að hækka upprunalegt tilboð um fimmtán milljónir dala og gæti heildarfjárfesting sjóðsins í Wow air því orðið 10,9 milljarðar króna. Fjárfestingin felst annars vegar í því að hann eignist hlutabréf í félaginu og hins vegar í lánveitingu með breytirétti sem síðar getur orðið að hlutafé í félaginu.

Upphaflega var sett skilyrði um Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, ætti áfram ákveðinn eignarhlut í fyrirtækinu. Þær forsendur virðast nú hafa breyst. Gert er ráð fyrir því í nýju samkomulagi að eignarhlutur hans  muni velta á því hvernig fjárhagsleg staða fyrirtæksins verði á næstu þremur árum. Hlutur Skúla gæti því orðið á bilinu 0 til 100 prósent eftir því hvernig félaginu reiðir af næstu þrjú árin.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir þetta fyrirkomulag algengt. „Í svona kaupum á fyrirtækjum er mjög algengt að það séu einhver svona „step up“ eða gulrót fyrir eigendur sem eru að selja félag. Þetta er alls ekkert óeðlilegt og þannig að hagsmunir allra séu saman - bæði skuldabréfaeigenda, Skúla og Indigo - að reksturinn gangi vel inn í framtíðina og að allir séu með sömu markmið,“ segir Sveinn. „En að menn séu saman í því að koma þessum bát á stað og bjarga félaginu eru mjög góðar fréttir.“

Skuldabréfaeigendur sem keyptu bréf í Wow air þurfa að samþykkja nýja skilmála sem fela í sér að endurheimtur þeirra verða bundnar rekstrarframmistöðu fyrirtækisins á næstu árum. Endurheimtur geta því orðið 50 til 100 prósent af upphaflegu virði bréfanna. Vextir verða lækkaðir úr níu prósentum í sjö prósent og bréfin endurgreiðast á fimm árum í stað þriggja eins og lagt var upp með. Sveinn segir að nú séu skuldabréfaeigendur með pálmann í höndunum. „Þeir þurfa að ákveða sig hvort þeir vilji taka þennan díl og færa niður eitthvað af bréfunum. Á móti virðast þeir sjá sér hag í því ef fyrirtækinu gengur vel að þeir fái þá eitthvað á móti sem var ekki í boði áður. Eins og staðan er núna þá held ég að það séu allar líkur á að þeir þurfi að kyngja því,“ segir Sveinn.