Það er frumskylda atvinnurekenda að tryggja öruggt vinnuumhverfi, segir framkvæmstjóri Samtaka atvinnulífsins. Samtökin hvetja atvinnurekendur til að vinna áhættumat gegn kynferðislegri áreitni. Alltaf eigi að túlka mál sem upp koma, brotaþola í hag.
Fjöldi kvenna úr hinum ýmsu starfsstéttum hafa stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Samtök atvinnulífsins sendi frá sér fréttatilkyningu í dag þar sem segir að ljóst sé vandinn er stærri og brotahegðunin algengari en áður var talið. „Það er frumskylda atvinnurekenda að tryggja að vinnuumhverfi sé öruggt fyrir alla starfsmenn og tryggja það að áreitni og ofbeldi eiga ekki heima á vinnustöðum á Íslandi. Fyrirtækjaeigendur og stjórnendur verða að stíga skref í því að yfirfara fyrirtækjamenningu t.d. innan sinna fyrirtækja og tryggja það að þar sé skýr farvegur fyrir þá sem telja sig vera órétti beittar eða ofbeldi, að það sé alltaf túlkað brotaþola í hag,“ segir Halldór Benjamín.
Í reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum kemur fram að atvinnurekandi eigi að setja fram áhættumat og greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum. Fyrirtækið Hýsing, dótturfélag Haga, er eitt þeirra sem uppfyllt hefur þessa lagaskyldu.
„Það hafa komið upp nokkur atvik í gegnum tíðina. Þá er tekið strax á málum, farið í að greina þetta og finna út hvað er í gangi,“ segir Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Hýsingar.
Hann hefur greint málin sem komið hafa upp. Gerendurnir reyndust ekki vera allir karlar. „Það sem kom mér á óvart var að þetta var nokkuð til jafns og ég átti alls ekki von á því,“ segir Guðmundur.
Í þeim sögum úr atvinnulífinu sem komið hafa fram eru dæmi eru um að konum sem kvarta undan kynferðislegri áreitni hefur verið sagt upp. „Það kemur ekki til greina hjá okkur. Fórnarlambið það skal aldrei hætta, það er gerandinn sem verður að fara. Það er ekki hægt að líða hitt, þú veist aldrei hvað gerist á eftir og það er óþolandi að leggja þá kvöl á fórnarlambið að þurfa að yfirgefa vinnustaðinn,“ segir Guðmundur.
Guðmundur segir til mikils að vinna að uppræta kynferðislega áreitni. „Þá líður fólki vel og þetta spyrst út. Og bara okkur stjórnendum líðum mun betur með þetta og það verður miklu rólegra á vinnustaðnum,“ segir Guðmundur. Nokkrum gerendur hefur verið sagt upp. „Já, við höfum gert það, bæði út af áreitni, eins út af yfirgangi og einelti. Maður furðar sig oft á fréttum sem maður les um þessi mál, af hverju yfirmenn eru ekki að taka á þessu föstum tökum,“ segir Guðmundur.