Umhverfisráðherra segir að búa verði svo um hnútana að ekki verði leyfilegt að skip brenni svartolíu við hafnir landsins. Gera verði reglubundnar mælingar á mengun frá skemmtiferðaskipum. Umhverfisráðherra segir til greina koma að skylda skip sem sigla á íslensku yfirráðasvæði til að setja upp hreinsibúnað svo þau losi minna af örfínum sótögnum sem skaðlegar eru heilsu fólks.
Eitt skemmtiferðaskip mengar þrisvar sinnum meira en allur bílafloti landsmanna. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gær í máli þýska vísindamannsins Axel Friedrich. Þær örfínu agnir sem koma við olíubruna skipanna eru hættulegar heilsu fólks og geta ýtt undir hjartasjúkdóma og heilabilun.
Alþjóðlegur samningur verði fullgiltur
„Það er auðvitað algjörlega óboðlegt á Íslandi því við búum við mjög góð loftgæði og við eigum að halda í þau og við eigum að fá að upplifa þau,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra. „Þetta hefur mikil áhrif inn í borgina eða inn á þá kaupstaði sem liggja við þessar hafnir. Og við verðum að bregðast við því. Við gætum farið í og ætlum reyndar að fara í, strax í næsta mánuði, að fullgilda MARPOL-samninginn, eða VI. viðauka þar,“ segir Björt.
Það er alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum. Björt segir að það sé forsenda þess að unnt sé að setja strangari kröfur um mengunarvarnir á skipum á íslensku yfirráðasvæði, líkt og gert er í Norðursjó, Eystrasalti og Ermarsundi. „Það eru ýmsar leiðir uppi á hugmyndastiginu ef maður getur sagt sem svo. Síur í skemmtiferðaskip,“ segir Björt.
Þær myndu draga úr mengun. Þá skjóti það skökku við að enn sé notuð svartolía. Björt segir að það taki tíma að fá alþjóðlegt samþykki fyrir því að jafnstrangar reglur gildi á íslensku hafssvæði og í Norðursjó. „En þangað til eigum við að stefna að hinu að búa svo um hnútana að það sé ekki hægt að brenna svartolíu við höfnina hvar sem er í Reykjavík, Akureyri eða hvað og auka mengun svona dramatískt eins og við höfum verið að sjá. Við þurfum auðvitað að byrja á því að mæla þetta betur,“ segir Björt.
Norðurslóðir séu viðkvæmt lífríki
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, tekur undir með ráðherra. „Það hefur verið ákall Faxaflóahafna að það verði ekki einungis settar strangari reglur um svartolíu heldur að svartolía verði bönnuð í efnahagslögsögu Íslands. Við eigum að hafa forystu um það og fá nágrannalöndin Grænland, Danmörk, Færeyjar með okkur í lið og horfa þannig til þess að Norðurslóðir sem viðkvæmt lífríki, að við tökum ekki áhættu með því að vera með svartolíu og svartolíuagnir, hvort heldur fyrir fólk eða náttúruna,“ segir Gísli.