Eigendur við Hraunfossa fara yfir málið

06.07.2017 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Pixabay
Fulltrúar landeigenda við Hraunfossa í Hálsasveit í Borgarfirði og fulltrúar Umhverfisstofnunar áttu fund í vikunni. Landeigendur íhuga nú næstu skref því Umhverfisstofnun telur gjaldtöku, sem landeigendur ætluðu að taka upp á bílastæðum, óheimila. Landeigendur eiga land við Hvítá þar sem gott útsýni er að Hraunfossum hinum megin við ána.

Ólafur A. Jónsson sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að bæði stofnunin og landeigendur hafi farið yfir sína hlið mála á fundinum. Hann viti ekki hvort og þá hvað landeigendur hyggist fyrir. 

Umhverfisstofnun telur gjaldtökuna ólöglega því bílastæðið við fossana er á friðlýstu svæði í umsjón Umhverfisstofnunar og því stangist gjaldtakan á við náttúruverndarlög. Vilji landeigendur innheimta gjald þurfa þeir að semja við Umhverfisstofnun.

Hödd Vilhjálmsdóttir almannatengill segir að landeigendur séu nú að athuga stöðuna og að hún eigi von á því að niðurstöðu sé ekki langt að bíða.