Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gekk út af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis nú undir hádegi með þeim orðum að hann nennti „ekki að sitja undir svona bulli“. Á fundinum er rætt um lögbann Glitnis gegn Stundinni og Reykjavík Media. Vilhjálmur hafði spurt Sigríði Rut Júlíusdóttur, lögmann Stundarinnar, hvort hún teldi að þagnarskylduákvæði laga vikju fyrir tjáningarfrelsi blaðamanna, sem hún svaraði játandi.

Vilhjálmur sagðist vera orðinn dálítið ruglaður í ríminu, benti á að þagnarskylduákvæði væri að finna í 142 löggjöfum og spurði svo:

„Er það virkilega svo að tjáningarþörf og tjáningarfriðhelgi blaðamanna sé meiri heldur en annarra í þessu landi, og víkja þá þessi ákvæði í þessum 142 löggjöfum fyrir tjáningarfrelsi blaðamanna? Er það skilningur lögmannsins?“

„Já,“ var svar Sigríðar Rutar.

„Þá er ég farinn, ég nenni ekki að sitja undir svona bulli,“ sagði Vilhjálmur þá, tók fartölvu sína, stóð upp og yfirgaf fundinn.

„Vilhjálmur er að fara á fund annars staðar,“ heyrðist annars staðar úr fundarsalnum sem hann gekk á dyr.

Fundurinn stendur enn. Hægt er að horfa á hann í beinni útsendingu með því að smella á þennan hlekk.