Leiksýningin Súper eftir Jón Gnarr sem sýnd er nú í Þjóðleikhúsinu hefur vakið mikla athygli og ekki allir á einu máli um ágæti verksins. Gríni þykir beint að minnihlutahópum eins og innflytjendum og trans fólki með varhugaverðum hætti en Dóru Jóhannsdóttur leikkonu finnst höfundur aldrei fara yfir strikið.
Súper Jóns Gnarr var til umræðu í Lestarklefanum á Rás 1 og RÚV 2 og gestir Kristjáns Guðjónssonar voru þau Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður, Inga Björk Margrétar- og Bjarnadóttir listfræðingur og Dóra Jóhannsdóttir leikkona.
Gunnar Smári Egilsson gefur lítið fyrir vísun í matarmenningu þegar kemur að inntaki verksins. „Fólk skilgreinir sig raunverulega út frá Hagstofuupplýsingum. Hvers lenskur ertu, hvers kyns ertu og svo framvegis. Það eru allir í tilvistarkreppu og það er alltaf útfrá þjóðerni, kyni og hvort þú sért í sambandi eða einhleypur. Þú ferð ekkert nær persónunum en það. Ég held að hann noti matinn sem eins konar kenningu um að Íslendingar skilgreini sig eftir því að þeir borði íslenskan mat. Það er engin dýpri tilvísun í matarmenningu en það. Ég upplifði það ekki þannig,“ segir Gunnar Smári Egilsson.
„Ég fór á sýninguna í gær og síðan þá hef ég farið ótal hringi. Mér fannst þetta fyndið verk en það er þessi ádeila sem var svona upp og ofan fyrir mér,“ segir Inga Björk. „Hann er að spila inn á rosalegar steríótýpur og ætlar sér að pota í þessa aumu bletti Íslendinga. Við erum ekki rasistar, Pólverjar eru rosalega duglegir og talar svo um hvernig við flokkum fólk. Það eru Íslendingar úti á landi, Íslendingar í höfuðborginni, svo er talið áfram niður þar sem reka lestina Indverjar og svertingjar. Svo fer hann inn á eldfim málefni, eins og málefni trans fólks, innflytjendamálin og hann ætlar sér að ýta á þessa aumu bletti en mér fannst þetta vera bara frekar ódýr hlátur. Það var ekki endilega verið að hlæja að Íslendingum heldur var þetta oftar á kostnað þessara jaðarhópa,“ segir Inga Björk og minntist á að hún oftar en ekki sopið hveljur á meðan allur salurinn lá í hláturkasti. „Kannski er ég svona veik í þessum rétttrúnaði en mér fannst þetta oft fremur óþægilegt“.
Dóra Jóhannsdóttir leikkona segist sömuleiðis vera viðkvæm fyrir gríni sem beint sé að jaðarhópum samfélagsins en vill ekki meina að Jón Gnarr geri það ósmekklega í Súper. „Mér finnst hann alltaf réttu megin við línuna. Ég veit að hann er mjög réttsýnn maður og það er vandmeðfarið að leika með karaktera sem tilheyra jaðarhópum en að geta gert það og verið réttu megin við línuna. Það að maður sjái skoðun höfundar skýrt í gegn og að hann sé ekki fordómafullur og það finnst mér akkúrat klárt mál í sýningunni og maður efast ekki um hver skoðun höfundar er,“ segir Dóra. „Allar þessar skilgreiningar og einmitt þessar Hagstofuupplýsingar, af hverju er það svona? Af hverju megum við ekki gera það sem við viljum. Mér fannst það einmitt vera mjög sterk sögn í þessu. Ég meina, erum við ekki öll bara kjöt? Þarf eitthvað að pæla meira í þessu?“ spyr Dóra Jóhannsdóttir leikkona og segir hún Jón undirstrika þessar skilgreiningar mjög mikið og sýnir fram á fáránleika þess að við megum ekki bara vera eins og við viljum.